Nýr Herjólfur hefur siglingar
Nýi Herjólfur fór í sína fyrstu ferð með farþega milli lands og Eyja í gærkvöldi. Skipið lagði af stað af stað klukkan 19:30 úr Vestmannaeyjahöfn með 500 farþega. Til greina kemur hvort gamli Herjólfur sigli auk hins nýja um næstu helgi þegar Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fer fram.
Aðstaða í Vestmannaeyjahöfn hefur nú verið bætt þannig að ferjan getur hafið siglingar á milli lands og Eyja án þess að tekin sé áhætta með skemmdir á Herjólfi. Unnið hefur verið að því að koma áætlunarsiglingum nýs Herjólfs af stað í samvinnu Vegagerðarinnar, Herjólfs ohf. og hafnarinnar í Vestmannaeyjum.
Þá kemur jafnframt fram að aðstaðan í Vestmannaeyjahöfn verði bætt enn frekar í haust með uppsetningu á enn öflugri „fenderum“ sem eiga ekki bara að takmarka skemmdir eða annað lask heldur mun það líka auðvelda stjórnendum skipsins að leggja að og frá. Gæti það því einnig stytt þann tíma sem tekur að leggja að. Reiknað er með að það verk verði unnið á haustmánuðum.