Nýr Honda CR-V væntanlegur á Evrópumarkað í haust

Honda CR-V hefur verið með vinsælli bílum á íslenskum markaði.  Nýi CR-V-inn verður bæði eyðslugrennri og með aukið innrými án þess að stækka að utanmáli.

Fjórða kynslóð Honda CR-V hefur verið á Bandaríkjamarkaði frá því í desember 2011 og nú er hafin framleiðsla á Evrópu-útgáfunni í verksmiðjum Honda í Swindon á Englandi. Eins og við var búist er lítill útlitsmunur á Ameríku- og Evrópugerðinni en í Evrópu bjóðast dísilvélar.

Nýi Honda CR-V sem fer í sölu á Evrópumarkaði í haust verður í byrjun með tvær vélar:  Bensínvél 2,0 i-VTEC, 155 hestöfl/195 Nm, sem losar 174 g/km af CO2 (eldri útgáfa 150 hö/190 Nm, 195 g/km) og endurbættri 2,2 lítra i-DTEC dísilvél, sem losar 153 g/km af koltvísýringi samanborið við 171 g/km frá eldri útgáfunni. Afköstin eru óbreytt eða 150 hö og 350 Nm.

CR-V með framhjóladrifi verður nýr valkostur en bíllinn hefur fram að þessu eingöngu verið fjórhjóladrifinn.   Framhjóladrifinn CR-V er eyðslugrennri og umhverfisvænni og koltvísýrings losunin með i-VTEC vélinni fer niður í 170 g/km.  2,2 lítra i-DTEC dísilvélin verður aðeins í boði í fjórhjóladrifnu útgáfunni en frá og með sumri 2013 á að bjóða upp á 1,6 lítra i-DTEC dísilvél sem losar aðeins 99 g/km af CO2 í framhjóladrifs CR-V.  

Honda CR-V innrýmiNýi bíllinn er tæknivæddari en eldri útgáfur.  CR-V 2013 er m.a. með nýjan búnað - Eco Assist System - sem hjálpar ökumanni að spara eldsneyti .  Start/stopp verður staðalbúnaður í öllum beinskiptum gerðum bílsins.

Innrihönnun bílsins hefur verið breytt til að auka innrými.  Bíllinn er minni um sig en núverandi útgáfa eða 30 mm styttri og 5 mm lægri.  Farangursrýmið hefur vaxið og er 589 lítrar.  Til samanburðar þá er farangursýmið í samkeppnisbílunum Toyota RAV4 og VW Tiguan 470 lítrar, 479 lítrar í Nissan X-Trail og 410 lítrar í Ford Kuga. Búið er að bæta hönnun aftursætisins og einfalda þannig að auðvelt er að fella þau niður.  Með aftursætið niðurfellt næst 1648 lítra farangursrými. 

 

Hljóðeinangrunin er betri og talsmenn Honda segja að nýi CR-V sé 3 dB hljóðlátari en þriðja kynslóðin. Efnisgæði í innréttingum hafa einnig verið aukin og hönnun stólbaka dregur úr líkum á alvarlegum hálsmeiðslum við aftanákeyrslu.

Honda CR-V kom fyrst á markað 1995 og notið mikilla vinsælda meðal neytenda enda hafa yfir 5 milljón bílar selst í 160 löndum.  Honda CR-V kom á markað í Evrópu 1997 og ári síðar var farið að framleiða bílinn í Swindon.

Honda CR-V hlid