Nýr íslenskur bílavefur

http://www.fib.is/myndir/Honda-logo.jpg


Óskar Ásgeirsson opnaði í sl. mánuði nýjan bílavef sem sérstaklega er tileinkaður Honda og höfðar þar með sérstaklega til Honda áhugafólks. Slóðin inn á vefinn er www.vtec.is.

Að sögn Óskars er vefurinn ætlaður öllum bílaáhugamönnum enda þótt hann sé fyrst og fremst tileinkaður Honda. Hann kveðst munu uppfæra vefinn nokkrum sinnum í hverjum mánuði og setja inn nýtt efni eftir hentugleikum og eftir því sem fréttnæmt er hverju sinni.

Vefurinn sækir nafn sitt í VTEC tæknina, tækni sem Honda kom fyrst fram með í fjöldaframleiddum heimilisbílum. Þessi tækni snýst um breytilegan tölvustýrðan opnunartíma innsogs- og útblástursventla vélarinnar eftir álagi, snúningshraða og eldsneytisgæðum. Hún sér til þess að eldsneytið brennur betur og orkan í því nýtist sömuleiðis betur og eyðsla og mengun minnkar.

Á www.vtec.is eru auk þess og verða í framtíðinni vandaðar umfjallanir um nýja bíla og hverskonar bíltækni og reynsluaksturskýrslur. Þá geta lesendur sent inn efni til birtingar – myndir og texta -  sem tengist bílum og umferð og er netfang fyrir aðsent efni oski.a@simnet.is