Nýr Jeep –„alvöru“ jeppi

http://www.fib.is/myndir/Patriot1.jpg
Jeep Patriot.

Chrysler sýndir hugmyndajeppann Patriot á Genfarbílasýningunni í fyrra. En nú er ljóst að Patriot var lengra kominn en svo að hann væri einungis hugmynd því að bíllinn er að fara í raðframleiðslu. Hjá Chrysler segja menn að þetta sé alvöru jeppi og besti torfærubíllinn í sínum flokki enda með háu og lágu drifi og mismunadrifslæsingum.

Jeep Patriot er alveg nýr bíll, engin uppfærsla eða endurbót eldri gerða. Í bílnum er allur nýjasti tækni- og öryggisbúnaður þótt hið ytra sé haldið fast í hefðbundið jeppaútlit.
Jepp Patriot er fimm sæta og aftursætið er niðurfellanlegt og þá skapast slétt flutningsgólf. Sömuleiðis er fáanlegt niðurfellanlegt farþegasætið fram í fyrir þá sem þurfa stundum að flytja mjög langa hluti. Af staðalbúnaði má nefna ESP stöðugleikabúnað og loftpúðagardínur meðfram allri gluggalínunni. Grunnvélin er 2,4 lítra fjögurra strokka, 172 ha. bensínvél. Gírkassar eru annaðhvort CVT, stiglaus sjálfskipting eða fimm gíra handskipting.

Patriot verður fáanlegur með framhjóladrifi einnu saman sem væntanlega mun ekki þykja áhugavert hér á landi. Fjórhjóladrifið nefnist Freedom Drive II og er það með bæði háu og lágu drifi og mismunadrifslæsingum. Loks mun fást sérstök torfæruútfærsla sem nefnist „Trail Rated." Sú útgáfa er 2,5 sm hærri undir lægsta punkt, á 19 tommu felgum og sérstaklega þéttri yfirbyggingu til aksturs í ám og vötnum.
http://www.fib.is/myndir/Patriot2.jpg
Framleiðsla á Patriot hefst í Bandaríkjunum á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Hann kemur á Evrópumarkað í byrjun næsta árs. Ætlunin er að bjóða hann í Evrópu með tveggja lítra dísilvél og sex gíra handskiptingu.