Nýr Land Rover Discovery Sport

Land Rover hefur í dag afhjúpað nýjan bíl; Land Rover Discovery Sport. Þetta er jepplingur og leysir hann af hólmi Land Rover Freelander. Afhjúpunin fór fram í geimrannsóknastöðinni Spaceport America í New Mexico. Hluti þess myndefnis sem birt hefur verið nú í dag var tekið upp  hér á Íslandi fyrr í sumar og eru leikarar í hreyfimyndunum bæði íslenskir og erlendir. Talsverð leynd hvíldi yfir myndatökunum og voru leikarar látnir undirrita yfirlýsingu um það að þeir segðu ekki nokkrum einasta manni frá því hvað þeir væru að fást við og hvar.

Þessi nýi bíll er mjög svipaður í útliti og Range Rover Evoque en af hálfu Land Rover er talað um hann sem hinn fyrsta í nýrri Discovery-seríu. Og líkur er hann nýjasta Discovery jeppanum að því leyti að hann verður fáanlegur með sætum fyrir sjö manns (5+2). Hönnunarstjóri Land Rover; Gerry McGovern segir að við hönnun nýja bílsins hafi verið leitast við að sameina einkenni lúxusjeppa og almennt notagildi hversdagsjepplinga. Hann ætti því að höfða til breiðs og fjölbreytts hóps bílakaupenda.

Discovery Sport verður framleiddur í verksmiðju Land Rover í Halewood í útjaðri Liverpool í N. Englandi og hefst sala á honum  á fyrri hluta næsta árs. Fyrstu bílarnir verða með fjögurra strokka 2,0 lítra eða 2,2 lítra bensín- og dísilvélum en á næsta ári kemur ný dísilvél sem aðeins gefur frá sér 119 grömm CO2 pr. kílómetra. Staðalgírkassinn er sex gíra handskiptur eða ný níu stiga jálfskipting. Þá verður hægt að velja milli þess að fá bílinn framhjóla- eða þá fjórhjóladrifinn.