Nýr mótor fyrir rafbíla í þróun

Háskólanum í Newcastle í N. Englandi University hefur verið falið að leiða rannsóknir og tilraunir á nýrri gerð háhraða-rafmótors fyrir bíla. Til þessa verkefnis hefur verið veitt 16 milljónum punda. Þetta kemur fram á vef skólans.

Þetta nýja verkefni byggir á þegar gerðum rannsóknum á vegum háskólans í Newcastle. Markmið þeirra var það að þróa nýjan rafmótor fyrir raf- og tvinnbíla úr málmum og öðrum hráefnum sem auðvelt er að nálgast og þau því ódýr.  Það þótti takast bærilega og verður þessi mótor því þróaður áfram og er miðað við að hann verði tilbúinn til framleiðslu og ísetningar í Land Rover, Range Rover og Jaguar bíla innan næstu tveggja ára.

Það sem fyrst og fremst er ólíkt með þessum nýja rafmótor og öðrum rafmótorum fyrir bíla er að í hann verða ekki notaðir sjaldgæfir og mjög dýrir málmar eins og neodymium og dysprosium. Í stað þeirra verða notaðar málmblöndur sem aðallega innihalda ósköp venjulegt járn. Járnið er ekki bara miklu ódýrara heldur einnig miklu minni umhverfisskaðvaldur en dýru, sjaldgæfu  málmarnir og auk þess aðgengilegt nánast allsstaðar. Hvorttveggja er lykilatriði ef svo fer að eftirspurn vex eftir raf- og tvinnbílum. Flestir búast reyndar við því að það muni gerast örar en hingað til hefur verið haldið. Ennfremur er stefnt að því að í nýju mótoronum verði heldur enginn kopar. Í hans stað verið notað ál., sem þýðir að mótorarnir verða mun léttari en áður og jafnframt áreiðanlegri í rekstri.

Frumkvæði að þessum rannsóknum kom upphaflega frá bresk-indverska bílaframleiðandanum Jaguar/Land Rover en mörg fleiri tæknifyrirtæki koma að verkefninu eins og Zytek Automotive, GKN Driveline, Motor Design Limited, AVL, Drive System Design, Williams Advanced Engineering, Delta Motorsport, Tata Steel, Newcastle og Cranfield og Bristol háskólar.