Nýr Nissan í C-flokki

Nissan hefur ekki um langt árabil boðið fram í Evrópu fólksbíla í flokki stærri smábíla og bíla af minni meðalstærð; svonefndum C-stærðarflokki eða Golflokknum. Síðustu Nissan bílarnir í þessum flokki voru Almera og Primera, en framleiðslu á þeim var hætt fyrir um áratug. Í þeirra stað komu hinir hábyggðu fjölnotabílar og jepplingar; Juke og Qashqai. Á þessu verður sú breyting nú í haust að á Evrópumarkað kemur nýr fimm dyra hlaðbaksfólksbíll undir gerðarheitinu Pulsar og fyllir hann það tómarúm sem Almera og Primera skildu eftir sig.

Pulsar nafnið muna sjálfsagt einhverjir á Nissanbíl sem reyndar varð aldrei sérstaklega algengur hér á landi en var á Evrópumarkaði fram undir árið 1978. Þótt Pulsar nafnið hyrfi af Nissan bílum á Evrópumarkaði hélt það áfram í Asíu og Eyjaálfu. Í Ástralíu er t.d. bíll með þessu nafni og telja má sennilegt að það sé svipaður bíll og aá sem klynntur verður fljótlega fyrir Evrópumarkaðinn. Myndin sem með þessari frétt fylgir er einmitt af hinum ástralska Nissan Pulsar.

En hinn evrópsku Nissan Pulsar verður framleiddur í verksmiðju Nissan í Barcelona. Reiknað er með að hann verði frumsýndur á bílasýningunni í Frankfurt í september haust og í tengslum við hana verði hann kynntur evrópskum bílablaðamönnum og komi eftir það á almennan markað.