Nýr ódýr fólksbíll frá Dacia

Dacia, hið rúmenska dótturfyrirtæki Renault hefur gengið ágætlega með sína ódýru bíla, eins og Logan. Á næsta ári er von á einum ódýra bílnum enn. Það verður stórfjölskyldubíll sambærilegur við Citroen Grand Picasso, Peugeot 5008, Ford C-Max o.fl. nema mun ódýrari.  Nafn þessa bíls verður líklega Dacia Popster og mun hann kosta frá 13 þúsund evrum.

 Dacia Logan var frumkynntur árið 1974. Hann var mjög ódýr en markaðurinn tók honum afar vel. Í dag er Logan framleiddur í alls átta löndum í meir en hálfri milljón eintaka árlega. Hann hefur síðustu árin verið gagnrýndur fyrir þá sök að hafa ekki fengist með ESC stöðugleikabúnaði.

Árið 2006 kom svo Dacia MCV fram á sjónarsviðið sem ódýrasti sjö sæta bíllinn í Evrópu. Hinn nýi Popster sem fæntanlegur er á næsta ári verður byggður á sama grunni, en nokkru stærri. Hann verður því einskonar framhald eða framþróun MCV fjölnotabílsins. Í honum verður ýmis öryggisbúnaður sem nauðsynlegur þykir í nýjum bílum, þar á meðal er ESC stöðugleikakerfi og spólvörn. Hvorugt er til staðar í MCV gerðinni.

Dacia Popster verður frumsýndur í framleiðsluútgáfu á bílasýningunni í Frankfurt í september nk. Hann er svo væntanlegur á markað í Evrópu á fyrrihluta ársins 2012. Sterkur orðrómur er um að Popster verði ekki eina nýjungin frá Dacia heldur líka enn stærri bíl byggðan á sömu botnplötu með rennihurð á hlið og tvöföldum bakdyrum.

Bílamarkaðsfræðingar telja að eftirspurn muni halda áfram að aukast eftir fjölnotabílum næstu 3-4 árin. Að þremur til fjórum árum liðnum muni um ein milljón slíkra bíla seljast árlega í Evrópu, sérstaklega þó þeir minni, það er að segja bílar á stærð við Opel Meriva.  Af slíkum bílum muni um 600 þúsund bílar seljast árlega.