Nýr ofur-Golf

Volkswagen afhjúpar á bílasýningunni í Los Angeles sem nú er að hefjast, nýja ofurgerð VW Golf. Þetta er langbakur eða Variant eins og það heitir hjá Volkswagen. Þetta er aflmesta, hraðskreiðasta og dýrasta undirgerð Golfsins. Vélaraflið er 300 hö og hún, sex gíra DSG gírkassinn og aldrifið skjóta þessum „fjölskyldubíl“ í hundraðið á 5,1 sekúndu.

Til að bíllinn ráði nú við þetta mikla afl og hraða er bílskrokkurinn sérstaklega styrktur eins og í keppnisbíl og hann er 20 mm lægri á hjólunum en venjulegur Golf. Uppgefin meðaleyðsla er sögð 7 lítrar á hundraðið og CO2 útblásturinn 163 grömm á kílómetra.