Nýr ofurjepplingur; Alfa Romeo Stelvio

Hinn nýi Alfa Romeo Stelvio var afhjúpaður í dag á bílasýningunni í Los Angeles. Hann er fyrsti jeppinn/jepplingurinn í sögu þessarar fornfrægu bifreiðategundar Alfa Romeo sem fyrir margt löngu var heimsþekkt tegund og Alfa Romeo bílar sigursælir á kappakstursbrautum heimsins. Nú binda eigendur Alfa, Fiat-Chrysler, vonir við að Stelvio verði sá bíll sem lyfta muni merkinu til fyrri vegsemdar.

   Stelvio er nafn á fjallaskarði í ítölsku Ölpunum, en Stelvio bíllinn verður byggður steinsnar frá því, í verksmiðju Fiat-Chrysler í Cassino. Ætlunin er að vanda vel til hans og miða framleiðsluna við bestu sambærilega jepplinga Þjóðverja eins og Porsche, VW, Audi, Mercedes og BMW. Þannig er kaupenda-markhópurinn stöndug millistétt austan hafs og vestan. Hann á að byrja að sjást í sýningarsölum umboða beggja vegna Atlantshafs upp úr miðju næsta ári.

   Talsvert liggur við að það takist því að Alfa Romeo hefur nánast algerlega tapað fótfestu sinni í Bandaríkjunum. Í upphafi yfirstandandi árs var hún að sönnu ótraust en hefur nú þegar einn og hálfur mánuður er eftir af árinu, hrunið nánast alveg. Einungis 441 Alfa Romeo hefur selst í Bandaríkjunum á árinu, lang flestir af gerðinni 4C og 4C Spider.

   Reid Bigland forstjóri Alfa Romeo segir við Autocar í Bretlandi að Stelvio sé líklegur til að lyfta Alfa Romeo merkinu til vegsemdar á ný vegna þess að bíllinn hafi svo miklu betri og skemmtilegri aksturseiginleika en sambærilegir þýskir bílar. Það muni fólk fljótt finna. ,,Þessi bíll mun ekki valda vonbrigðum,“ segir hann,

   Tvær vélargerðir verða í boði í Stelvio. Staðalvélin er fjögurra strokka tveggja lítra að rúmtaki með túrbínu og beinni eldsneytisinnsprautun, 280 hö. Hin er 2,9 l V6 með tveimur túrbínum og 505 hö. Sú síðarnefnda skýtur bílnum í hundraðið úr kyrrstöðu á rétt innan við fjórum sekúndum.