Nýr Opel Astra

http://www.fib.is/myndir/Astra2010.jpg
Nýr Opel Astra verður frumsýndur í framleiðsluútgáfu á Frankfurt bílasýningunni í haust.

Þótt óvissa sé um á hverra höndum Opel lendir á næstunni er lítill bilbugur á hönnuðum og starfsfólki Opels í Þýskalandi. Hinn nýi Opel Insignia hefur farið sigurför um Evrópu og þykir vel heppnaður í hvívetna, mikið gæðaátak hefur skilað neytendum betri bílum og þrátt fyrir óvissu og kreppu í bílaiðnaðinum er Opel á uppleið. Og nú er röðin komin að nýrri kynslóð Opel Astra sem frumsýndur verður í Frankfurt í haust.

Samkvæmt myndum af nýju gerðinni verður nýja Astran mjög áþekk Insignia í útliti nema auðvitað minni um sig.  Þó er bíllinn stærri en eldri kynslóðin. Lengd milli hjólamiðja er 268,6 sm og heildarlengdin er 4,42 metrar, eða 7,1 sm lengri en eldri gerðin.

Átta vélargerðir verða í boði sem allar uppfylla Euro 5 mengunarstaðalinn. Dísilvélarnar eru frá 95 upp í 160 hestöfl, þar af er ein sem nefnist EcoFLEX og gefur frá sér mjög lítið CO2 og er sögð mjög sparneytin. 

Bensínvélarnar verða 100 til 180 hestöfl og sú sem kemur í stað núverandi 1,8 l bensínvélar verður 1,4 l túrbínuvél. Alls kyns aukabúnaður verður fáanlegur í hinn nýja Opel Astra. Þar á meðal tölvustýrð fjöðrun og skriðstillir með sjónvarpsmyndavél sem les hraðaskiltin og stillir hraða bílsins í samræmi við þann hámarkshraða sem skiltin mæla fyrir um.