Nýr Outlander gengur í heimafólk

http://www.fib.is/myndir/NyrOutlander.jpg
Ný og talsvert breytt gerð Mitsubishi-jepplingsins Outlander kemur á markað í Evrópu í byrjun næsta árs. Bíllinn hefur verið í sölu á heimamarkaði í Japan síðan í október sl. og þar hefur hann fallið fólki svo vel í geð að Outlander er söluhæsti jeppi/jepplingur þar í landi þessa dagana.

Hinn nýi og breytti Outlander er einn þáttur þeirrar nýsköpunar sem bílaframleiðsla Mitsubishi hefur verið í undanfarið. Sú nýsköpun er á sinn hátt tengd velgengni fyrirtækisins í torfæruralli mörg undangengin ár, Dakar rallinu ekki síst. Í útliti ríkir nú ákveðin lína sem sýnileg er í flestum nýjum Mitsubishiu bílum og rekja má til hinna sigursælu Evolution-bíla úr torfærurallinu.

Markaðshlutdeild Mitsubishi í Evrópu hafði verið að rýrna undanfarin ár þar sem bílarnir þóttu vera orðnir gamaldags og sviplitlir. Svo virðist sem Mitsubishi sé að takast að snúa þessu við nú, því að salan jókst um 17,7% á síðasta ári í Evrópu miðað við árið 2004.