Nýr rafbíll frumsýndur á Íslandi

http://www.fib.is/myndir/Reva-rafbill-2.jpg
Reva City Car. Kominn til Íslands.

Indverski rafbíllinn Reva City Car er kominn til landsins. Í frétt okkar frá 4. júlí sl. var sagt frá þessum bíl og að hann væri á leiðinni til Íslands og að tveir slíkir bílar hefðu þegar selst í eins konar forsölu.

Umboðsfyrirtæki bílsins nefnist Perlukafarinn ehf, Holtasmára 1 í Kópavogi ætlar að frumsýna bílinn nk. laugardag, 15. september í Perlunni á sýningu visthæfra bíla og visthæfra orkugjafa. Auk bílsins sýnir fyrirtækið Perlukafarinn einnig Vectric rafmagnsmótorhjól. Sýningin verður opin kl. 10-16 á laugardag. Hægt verður að panta reynsluakstur á bílnum og hjólinu á sýningunni. Nánari upplýsingar um þessi nýju farartæki er að finna á heimasíðu Perlukafarans ehf.



Rafbíllinn Reva City Car er byggður til þess að nýtast sem farartæki í borgum. Hann kemst 40 til 80 kílómetra á rafhleðslunni eftir því hvert hitastigið er og hversu mikið af miðstöð og hitunartækjum eru í notkun. Hámarkshraði er 75 km / klst. Hann er engu að síður ágætlega viðbragðsfljótur og því ekki til trafala öðrum farartækjum í borgarumferðinni. Þar sem hann nýtir eingöngu innlendan orkugjafa eru opinber gjöld af innflutningi og notkun hans í lágmarki.

 Bíllinn hefur verið í breskri og indverskri borgarumferð síðan árið 2003 og í Noregi frá síðasta ári.