Nýr rafbíll kynntur í Frakklandi

Citroen C-Zero er hreinn rafbíll sem á að fara á almennan bílamarkað í Evrópu undir lok næsta árs. Þetta hefur nú verið kynnt með pomp og pragt í Frakklandi og á sölustöðvum Citroen geta áhugasamir fengið reynsluaksturstíma og lagt inn pantanir fyrir bílnum.

Bíllinn er þó ekki alveg glænýr af nálinni því að þetta er sami rafbíllinn og kynntur hefur verið undir tveimur öðrum nöfnum áður, það er að segja Peugeot og svo loks Mitsubishi, en í rauninni er þetta Mitsubishi i-Miew sem meira að segja hefur verið sýndur á Íslandi í tengslum við ráðstefnu um umferð og samgöngur sem ganga fyrir endurnýjanlegri orku. Ráðstefnan sú var haldin fyrir bráðum tveimur árum.

Citroen/Peugeot bílaframleiðslusamsteypan franska, PSA hefur um árabil átt samstarf við Mitsubishi. Það hófst upphaflega í kring um jepplinginn Outlander, en Mitsubishi framleiðir hann einnig undir merkju bæði Peugeot og Citroen en með 2,2 lítra PSA dísilvélum.

 FÍB blaðið fékk Mitsubishi i-Miew bílinn í hendur til stutts kynningaraksturs þarna um árið og eins og sagt var frá hér á heimasíðu FÍB og í FÍB blaðinu. Skemmst er frá því að segja að bíllinn reyndist ágætur í akstri, hafði gott afl og viðbragð enda þótt fjórir þreknir kallar væru um borð.  Bíllinn hegðaði sér á allan hátt eins og góður smábíll með einni undantekningu þó, hann var nánast hljóðlaus.

 En tvö eintök þessa bíls, og hugsanlega fleiri, er nú á leiðinni til Íslands aftur og verða komnir á götuna í næsta mánuði. Bílarnir eru keyptir til landsins samkvæmt samningi milli Mitsubishi og iðnaðarráðuneytisins og verða þeir prófaðir í daglegri notkun við íslenskar aðstæður.