Nýr rafknúinn ofursportbíll

http://www.fib.is/myndir/P1.jpg

JJAD P1e rafknúinn ofursportbíll. Væntanlegur 2012.

Fyrrverandi aðalhönnuður McLaren sportbílafyrirtækisins, Jim Dowle að nafni hefur hannað rafknúinn ofursportbíl sem á að komast 370 kílómetra á hverri rafhleðslu. Í bílnum eru tveir rafmótorar, samtals 394 hestöfl. Viðbragðið 0-100 km.klst er 2,9 sekúndur. Bíllinn er ennþá einungis á teikniborðinu en allir tölvuútreikningar liggja fyrir, m.a. um þyngd, afl, viðbragð og drægi miðað við gefnar forsendur.

Nú er verið að byggja fyrstu frumgerð þessa bíls sem ætlað er að keppa við þá raf-ofursportbíla sem þegar eru fram komnir, það er að segja Tesla og Fisker o.fl. Vinnuheiti bíls Jim Dowie er JJAD P1e. Hann verður að mestu byggður úr koltrefjaefnum til að halda þyngdinni sem allra mest í skefjum en hún verður, þrátt fyrir stóran rafhlöðupakka, undir einu tonni. Í bílnum er sérhannað kerfi og búnaður sem endurnýtir mjög vel hemlunarorkuna og breytir henni aftur í rafmagn sem skilast inn á geymana.

Bíllinn verður fjórhjóladrifinn og rafmótorarnir tveir eru samanlagt 394 hestöfl, vinnslan eða togið er hvorki meira né minna en 800 Newtonmetrar sem skila sér nánast um leið og mótorarnir byrja að snúast. Þessi gríðarlega vinnsla útskýrir hið ofurskjóta viðbragð; 2,9 sekúndur í hundraðið.

Fyrsta ökuhæfa frumgerðin verður tilbúin á síðari hluta þessa árs og framleiðsla upp í pantanir sem þegar eru byrjaðar að berast, hefst 2012. Jim Dowle reiknar með að byggja 500 bíla árlega og áætlað verð á hverju eintaki er 55 þúsund bresk pund.