Nýr Renault fyrir Indland

Renault kynnti nýjan hábyggðan smábíl á dögunum í Chennai á Indlandi. Í frétt Renault er hann sagður verða á viðráðanlegu verði. Tekið er fram að hann sé heimsbíll, sem þýðir að auðveldlega má laga hann að hvaða markaðssvæði sem vera skal, Bíllinn er þó fyrst um sinn sérstaklega ætlaður indverska bílamarkaðinum, en sem heimsbíll gæti hann vissulega skotið upp kollinum í Evrópu sem Dacia. Þannig mátti í það minnsta skilja Carlos Ghosn Renaultforstjóra þegar hann kynnti bílinn fyrir fréttamönnum. Þessi nýi Renault heitir því sérkennilega nafni Kwid. Hann er framleiddur í Indlandi og er hábyggður og líkist jepplingnum Captur í útliti en minni. Hann er einungis 3,68 m langur og 1,58 m breiður, eða ámóta og Renault Twingo, bara hærri.

http://fib.is/myndir/Kwid-1.jpg

Kwid gæti verið áhugaverður bíll fyrir ýmsa í Evrópu, ekki síst þar sem vegir eru ekki alltof góðir og færð misjöfn, eins og á norðlægum slóðum, vegna þess hve hábyggður hann er, (18 sm undir lægsta punkt). Þá er enginn bílgerð af þessu tagi framleidd hjá Dacia í Rúmeníu og í Marokkó. Þá er Kwid byggður á sömu grunnplötueiningum og allir þeir Daciabílar eru byggðir sem nú eru í framleiðslu. Bílablaðamenn telja því ekki ólíklegt að þetta gæti orðið niðurstaðan hjá Renault yfirstjórninni og sérstaklega þó ef bílnum verður vel tekið í Indlandi.

Indverski bílamarkaðurinn er í hröðum vexti og bílaframleiðendur sjá þar mikil viðskiptatækifæri enda eru þar þessa dagana einungis 20 bíla í umferð á hverja þúsund íbúa. Í Kína eru 105 bílar á hverja þúsund íbúa og í Evrópu eru þeir 600.