Nýr sendibíll - Mercedes Citan

Mercedes hefur birt fyrstu myndir af nýjum litlum Benz sendibíl sem fá mun gerðarheitið Citan. Citan er svosem engin nýhönnun því að hér er á ferð Renault Kangoo undir hinu virðulega nafni.  Renault Kangoo og Volkswagen Caddy hafa átt í harðri samkeppni í Evrópu og reyndar á Íslandi líka og nú má vænta þess að samkeppnin í þessum bílaflokki harðni enn, því að Benz-Kangúinn verður á lægra verði en  VW Caddy þegar hann kemur á markað með haustinu.

Mercedes Citan er fremur lítill sendibíll til þéttbýlisbrúks fyrst og fremst og  fyllir út í það tómarúm sem Mercedes Vaneo skildi eftir sig þegar framleiðslu á honum var hætt árið 2005. Citan höfðar ekki síst til smáfyrirtækja og handverksmanna og er fyrsti áþreifanlegi ávöxtur nýhafinnar samvinnu Renault/Nisssan og Daimler, móðurfyrirtækis Mercedes Benz.

Sjálfur bíllinn er sem fyrr segir Renault Kangoo af þeirri kynslóð bílsins sem kom fram árið 2008. Hann fær síðan einskonar Benz-andlitslyftingu en auk þess leggur Benz til hans margvíslega tækni eins og skynvædda skrikvörn (Adaptive ESP) sem bregst við í samræm við hleðslu bílsins en hún verður staðalbúnaður í öllum undirgerðum bílsins.

Citan verður byggður í Frakklandi. Hann mun fást í þremur lengdum. Þrennskonar dísilvélar verða í boði; frá 75-110 hö. og ein 115 ha. bensínvél. Blue Efficiency búnaður frá Benz verður við bensínvélina, en meðal kosta hans er sjálfvirkur ádrepari og gangsetning, t.d. á ljósskiptum gatnamótum. Blue Efficiency búnaðurinn verður staðalbúnaður með bensínvélinni en fæst sem aukabúnaður við dísilvélarnar.