Nýr Skoda Superb á leiðinni

http://www.fib.is/myndir/Superb_.jpg
Hinn nýi Skoda Superb.

Skoda í Tékklandi er nú að leggja síðustu hönd á nýja kynslóð Skoda Superb. Nýi bíllinn verður verulega breyttur og stærri en áður. Að stærð verður hann mitt í milli „systurbílanna“ VW Passat og Audi A6; aðeins lengri en Passatinn og örlítið styttri en Audi-inn.

Auto Motor & Sport greinir frá því að bíllinn sé nánast tilbúinn til fjöldaframleiðslu og einmitt nú fari lokaprófanir fram á honum í  hitasvækjunni í Dauðadalnum í Bandaríkjunum. Þvínæst verði hann kuldaprófaður norður í Lapplandi og þau atriði sem þessar prófanir leiða í ljós af ágöllum verði svo lagfærð fyrir opnun Genfar-bílasýningarinnar í mars nk. þar sem ætlunin sé að frumsýna nýja bílinn. Sala á síðan að hefjast með vorinu.

Skoda í Tékklandi tilheyrir Volkswagen / Audi samstæðunni en Tékkarnir hafa frjálsar hendur við hönnun bíla sinna. Þannig mun  nýi Superb bíllinn verða ólíkur Passat og A6 að því leyti að hann verður hlaðbakur, með stórum afturfleka sem opnast á lömum uppi undir toppnum. Hann verður semsé ekki hefðbundinn stallbakur með skottloki eins og systurbílarnir og eins og fyrirrennarinn þótt svo gæti virst við fyrstu sýn.  

Vélar og gírkassar í nýja Superb verður ættað frá VW og Audi. Grunnvélin er 1,4 l TFSI bensínvél með bæði forþjöppu og túrbínu. Þá kemur 1,8 l vél með sömu tækni og topp-bensínvélin verður síðan 3,2 l, 255 ha. V6.

 Grunn-dísilvélin verður hin velþekkta en nú dálítið gamaldags 1,9 l vél með olíuverki, en ekki samrásarinnsprautun, sem kemur nokkuð á óvart. Auk hennar verða í boði tvær útgáfur af nýjustu 2ja lítra VW dísilvélinni, önnur er 140 hö en hin 180 hö.