Nýr Skódi – gamalt nafn

Nýr Skodabíll er væntanlegur í haust þegar árgerðir 2013  taka að renna af færiböndunum. Hann fær gerðarheitið Rapid, en margir muna það nafn, sem var á sportútgáfu Skoda 130 á árunum 1984-1990. Gamli Rapid var með vélinni aftur í skotti og var mjög laglegur og rennilegur bíll og þótti ágætis akstursbíll. Sumir vestrænir bílablaðamenn líktu aksturseiginleikum hans meira að segja við Porsche og það var ekki í háði gert.

Nýi Rapid er að stærð mitt á milli nýju Octavíunnar og Skoda Fabia. Það þýðir að hann er ekki ósvipaður að stærð og fyrsta kynslóð Skoda Octavia var. Hann er byggður á stækkaðri grunnplötu VW Polo og er einskonar blendingur stallbaks og hlaðbaks. Allavega gæti það virst svo á þeim myndum sem Skoda hefur sent frá sér af bílnum.

Vélagerðirnar sem kaupendur Skoda Rapid fá að velja úr eru fimm bensínvélar og tvær dísilvélar. Sú sparneytnasta nefnist GreenLine og með henni verður CO2 útblásturinn undir 90 grömmum á kílómetrann. Fimm gíra handskiptingar verða staðalbúnaður en sjö gíra DSG gírkassar valbúnaður. Skoda hefur þó verið spar á upplýsingar um bílinn að öðru leyti og hyggst vera það þar til á bílasýningunni í París í september.