Nýr Subaru Impreza

Subaru hefur um langt árabil skilað frá sér traustum og áreiðanlegum bílum sem sumir hverjir hafa verið afbragðs akstursbílar í ofanálag, ekki síst Impreza bílarnir. Á bílasýningunni í Los Angeles sem opnuð var blaðamönnum í gær og standa mun til 28. nóv. sýnir Subaru sérlega glæsilega frumgerð nýrrar Imprezu.

Toyota er nú meðeigandi í Subaru, eða bílaframleiðsludeild Fuji Heavy Industries. Bílamenn þykjast sjá þessa samstarfs stað í þessari nýju frumgerð og eru farnir að tala um nýju Imprezuna sem Subota en Subarumenn nefna bílinn Subaru Impreza Design Concept.   

Þetta er sportlegur fjögurra dyra hlaðbakur, með dálitlum Toyotasvip óneitanlega. En undir húddinu er tveggja lítra Subaru Boxervél og við hana stiglaus CVT sjálfskipting og fjórhjóladrif.