Nýr Subaru Impreza

Subaru frumsýndi framleiðsluútgáfu nýrrar kynslóðar hinnar vinsælu Impreza-gerðar á bílasýningunni í New York um páskana. Sala í USA er að hefjast á nýja bílnum en á Evrópumarkað kemur nýja Imprezan í fyrsta lagi undir lok árs 2017.

Í Bandaríkjunum mun bíllinn fást sem fjögurra dyra stallbakur eða fimm dyra langbakur. Nýja gerðin er öll nokkru stærri en sú eldri – 20 sm lengri. Heildarlengdin er 462,5 sm, breiddin er 177,7 sm og hæðin er 145,5 sm. Hvað útlit varðar hefur ekki orðið stökkbreyting. Nýi bíllinn er greinilega Subaru Impreza. Enginn þarf að fara í grafgötur með það.

Nýja Imprezan er byggð á nýjum botni sem samsettur er úr einingum sem raða má saman á marga vegu. Þær geta þannig nýst sem botn undir margar fleiri gerðir. Gamla Imprezan var mjög rómuð fyrir traustan undirvagn sem ekki var gjarn á að vindast og snúast í akstri. Þetta var í rauninni grunnur hinna traustu aksturseiginleika bílsins og nýja útgáfan er sögð með miklu traustari (stífari) undirvagni og þar með enn betri akstursbíll og öruggari en áður.

Bílarnir sem sýndir voru í New York voru allir með tveggja lítra boxervélum en boxervélarnar hafa alla tíð verið sérkenni Subaru bíla. Vélarnar eru sagðar nýjar að 80 prósenthlutum. Þær eru 156 hö og aflinu út í öll fjögur hjólin er miðlað í gegn um stiglausan CVT gírkassa. Á stýrinu eru síðan flipar sem gera mögulegt að skipta upp og niður milli sjö „gíra“ eða hraðastiga.