Nýr Subaru Outback í mars

Subaru hefur fram að þessu ekki boðið upp á sjálfskiptingu í Subarubílum með dísilvélum. En nú er að verða á því breyting. Á bílasýningunni í Genf sem hefst í mars, verður sýnd nýjasta uppfærsla – 2013 árgerð jepplingsins Outback með dísilvél – og sjálfskiptur.

2013 árgerðin af Outback  hefur það sem af er árinu verið fáanleg með bensínvél, en frá og með mars mun hann einnig fást með dísilvél. Við dísilvélina verður ýmist sex gíra handskiptur gírkassi eða þá  stiglaus CVT gírkassi sem hjá Subaru nefnist Lineartronic. Outback verður þannig fyrsti Subaru bíllinn nokkru sinni með sjálfskiptingu við dísilvél og fyrsti bíll yfirleitt með boxer-dísilvél og sjálfskiptingu.

Helstu nýjungar í Outback aðrar en dísilvélar og sjálfskiptingar verða minniháttar í þessari uppfærðu 2013 árgerð. Þær felast í lítilsháttar breyttu útliti, nýju grilli, nýju mælaborði og raddstýrðu GPS kerfi.