Nýr Suzuki Baleno

Suzuki hefur undanfarna mánuði kynnt hverja nýjungina á fætur annarri og heldur enn áfram. Nú stendur bílasýningin í Frankfurt fyrir dyrum og þar ætlar Suzuki að kynna nýjan stærri smábíl (minni millistærðarbíl) undir gömlu nafni - Baleno. Nýlega hefur Suzuki kynnt í Evrópu nýja smábílinn Celerio og nýjan jeppling undir gamla jeppaheitinu Vitara.

Balenonafnið var áður á ágætum litlum langbak sem hætt var framleiðslu á árið 2002. En hinn nýi Baleno sem sýndur verður almenningi á bílasýningunni í Frankfurt í september er eiginlega smábíll sem þó er það stór að hann rúmast vart innan flokks smábíla. Þótt ítarlegar upplýsingar um hann liggi ekki enn fyrir, má þó ráða að hann sé um það bil 252 sm langur milli öxla og heildarlengdin um fjórir metrar. Hann er þannig stærri en Suzuki Swift og trúlega rúmbetri og með ríflegra fótapláss en Swiftinn, Skoda Fabia og Peugeot 208 og fleiri svipaðir.

Hinn nýi Baleno er algerlega nýr bíll. Undirvagninn er ný-hannaður og þær vélar sem í boði verða eru það sömuleiðis. Ein þeirra verður 1000 rúmsm túrbínubensínvél með beinni eldsneytisinnsprautun sem kallast Boosterjet.

Þessi nýi Suzuki Balenu verður semsé Evrópufrumsýndur í Frankfurt í september og almenn sala á honum í Evrópu hefst upp úr næstu áramótum.