Nýr Suzuki Splash/ Opel Agila

http://www.fib.is/myndir/OpelAgila.jpg

Ný og gerbreytt gerð smábílsins Suzuki Wagon R er að koma fram á sjónarsviðið og verður nýja gerðin sýnd á bílasýningunni í Frankfurt í september nk. Bíllinn er samvinnuverkefni GM og Suzuki og sem Opel mun bíllinn áfram heita Opel Agila en sem Suzuki fær hann nýtt nafn; Suzuki Splash.  

Hann verður framleiddur í verksmiðju Suzuki í Ungverjalandi bæði sem Suzuki og Opel Agila. Nýja gerðin er ekki nærri eins kassalaga og sú gamla sem velþekkt er hér á landi undir Suzuki Wagon R heitinu. Öll hlutföll eru önnur – sá nýi er 6 sm breiðari og 21 sm lengri en sá gamli en 7 sm lægri. Þrátt fyrir þessa stækkun á lengd og breidd er þetta ennþá ódýr smábíll en þó rúmgóður og notadrjúgur. Heildarlengd hans verður 3,74 m.

Í nýja bílnum verða fjórir loftpúðar. Í Svíþjóð og því trúlega jafnframt á öðrum Norðurlöndum verða jafnframt loftpúðagardínur og ESC stöðugleikakerfi staðalbúnaður samkvæmt fyrstu fréttum. Þrjár vélargerðir verða í boði: Aðalvélin á Evrópumarkaði verður 1,3 lítra dísilvél með öragnasíu. Hún er 75 ha. og vinnslan er 190 Newtonmetrar. Minni bensínvélin er 1,0 lítrar að rúmtaki, 56 ha og sú stærri er 1,2 lítrar og 86 hö. Fimm gíra handskipting er staðalbúnaður en sjálfskipting verður fáanleg. Hingað kominn má búast við að verðið verði frá um einni milljón upp í ca 1,6 m. kr. miðað við væntanlegt verð á sænska bílamarkaðinum.