Nýr VW fjölnotabíll

http://www.fib.is/myndir/VW-Microvan.jpg
Hugmyndarbíll VW frá 2001.

Eftir vel heppnaða frumsýningu og góðar viðtökur í Detroit á hinum nýja Volkswagen Passat CC er von á annarri frumsýningu hjá Volkswagen fljótlega, eða nánar tiltekið á bílasýningu í Chicago 6.-17. febrúar næstkomandi.

Menn hjá VW tala um að það sé fjölnotabíll eða „minivan“ sem um sé að ræða og að bíllinn sé sérstaklega ætlaður fyrir Bandaríkjamarkað. Og nafn er víst komið á afkvæmið – Routan skal það vera og er dregið af Route, eða leið, en með endingu í takti við tegundaheitin Touran og Sharan.

Nýi bíllinn er hannaður og þróaður í samvinnu við Chrysler og verður byggður í verksmiðju Chryslers í bænum Windsor í Ontarioríki í Kanada. Hann verður tæpra fimm metra langur og með nægt rými fyrir sjö manns í þremur sætaröðum.

Á bílasýningunni í Detroit árið 2001 sýndi Volkswagen hugmyndabíl með mjög sterku svipmóti af gamla VW rúgbrauðinu frá 1955-1970 en sá bíll varð mjög vinsæll meðal ungra Bandaríkjamanna, ekki síst hippanna. Hvort nýi fjölnotabíllinn verður eitthvað líkur hugmyndarbílnum frá 2001 er ekki vitað ennþá.