Nýr VW Golf

http://www.fib.is/myndir/VW_Golf_VI.jpg
Sjötta kynslóð VW Golf - kemur í haust.

Martin Winterkorn forstjóri Volkswagen fullyrðir að nýja kynslóðin, sú sjötta af Volkswagen Golf, sem heimsfrumsýnd verður á haustdögum og kemur síðan á Evrópumarkað undir árslok, sé besti Golfinn hingað til.

Reyndar sýna bilanatíðnitölur að núverandi kynslóð, sú fimmta, sé einn besti Golfinn nokkru sinni. Verði sá nýi enn  öruggari í rekstri en núverandi Golf má segja að góður bíll verði betri, en tíminn mun að sjálfsögðu leiða það í ljós.

Winterkorn segir að nýja kynslóðin – Golf VI verði þægilegri í notkun, öruggari, betur byggður og úr vandaðri hráefnum. Hann verði einfaldlega sá besti í sínum flokki – Golf-flokknum. Verðið verður svipað og nú. Í Þýskalandi byrjar það í 16.500 evrum og val verður um bensín- og dísilvélar frá 80-170 hö. og í GTI útgáfunni verður vélin 214 hestafla.

Nýi Golfinn verður boðinn http://www.fib.is/myndir/VW_Golf_VI_aft.jpgbílablaðamönnum hvaðanæva úr heiminum til reynsluaksturs í septembermánuði, líklega á Íslandi. Bíllinn verður svo til sýnis almenningi á Parísarbílasýningunni sem hefst í lok septembermánaðar. Hann kemur síðan á evrópskan bílamarkað frá og með síðari hluta októbermánaðar.

Volkswagen hefur nú birt fáeinar myndir af nýja Golfinum. Samkvæmt þeim er bíllinn nokkuð breyttur og ber talsverðan svip af nýja sportlega fólksvagninum VW Scirocco. Af myndunum má ráða að Golf verður samt verulega líkur fyrirrennaranum og auðþekktur eins og oftast áður við kynslóðaskipti. Martin Winterkorn forstjóri VW segir að þessi sjötta kynslóð Golf muni setja ný viðmið í Golf-flokknum. Hann verði fullkomnari og betur búinn en aðrir sambærilegir bílar og með því að kaupa hann fái kaupendurnir mest fyrir peningana sína.