Nýr VW Golf í haust

http://www.fib.is/myndir/Golf%20VI.jpg
VW Golf VI.

Dagblaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung segir í frétt um nýja kynslóð hins gamalkunna bíls Volkswagen Golf að tekist hafi með nýju skipulagi í framleiðslu og hagræðingu að lækka framleiðslukostnað á hverju eintaki um að meðaltali um tæplega 1.200 evrur.

Væntanlegir kaupendur skuli þó ekki gera sér vonir um að nýi Golfinn, Golf VI (6) verði þetta ódýrari en núverandi Golf því Volkswagen gamli ætli sjálfur að stinga þessu í eigin vasa og nota í þróun og rannsóknir, ekki síst þær sem miða að því að mæta hertari kröfum um útblástur og mengun frá bílum. Þá eigi framleiðsla á nýju kynslóðinni að skila hagnaði frá nánast fyrsta framleiðsludegi sem núverandi kynslóð, kynslóð V, (5) gerði ekki. Hún fór ekki að skila arði fyrr en eftir tvö ár.

Volkswagen Golf hefur frá upphafi verið einn alvinsælasti bíll í Evrópu þau 34 ár sem liðin eru síðan framleiðslan hófst. Fimmta kynslóðin er af bílablaðamönnum talin vera sú besta hingað til og lausust við bilanir. Það staðfesta bilanatíðniskýrslur ADAC, systurfélags FÍB í Þýskalandi.

Hin nýja kynslóð VW Golf, kynslóð VI verður frumsýnd almenningi á bílasýningunni í París í haust. Um svipað leyti verður Golf VI kynntur völdum hópi evrópskra blaðamanna sem boðið verður til að reynsluaka bílnum. Samkvæmt óstaðfestum heimildum FÍB mun sú kynning fara fram á Íslandi síðsumars. Ein slík kynning hefur áður farið fram á Íslandi fyrir fáum árum. Það var þegar Evrópukynning á Mercedes Benz Gl jeppanum fór fram fyrir fáum árum. Þá komu á fimmta hundrað blaðamenn til landsins til að kynna sér bílinn. Búast má við enn fleiri í tengslum við samskonar kynningu á VW Golf VI, verði hún hér á landi.