Nýr VW Phaeton lagður á ís
Ný kynslóð lúxus-fólksvagnsins VW Phaeton hefur verið í bígerð að undanförnu en vinnu við hana hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Þetta kemur fram hjá Bloomberg fréttaveitunni sem hefur þetta eftir ónafngreindum heimildum.
Phaeton lúxusbílarnir eru skrúfaðir saman í verksmiðju VW í Dresden þar sem Bentley bílar eru einnig samsettir. Eiga báðar þessar tegundir fjölmargt sameiginlegt í tæknilegu tilliti þótt ólíkar séu að ytra útliti, en báðar eru þær dýrar. En þótt VW Phaeton sé ekki jafn dýr og Bentley er hann afskaplega dýr samanborið við aðra VW bíla og kostar frá tæplega 90 þúsund evrum.
Framleiðsla á VW Phaeton hófst árið 2002 og hugmynd VW manna var að keppa með honum á markaði við lúxusbensann Mercedes S. Phaeton náði hins vegar aldrei að höggva nærri S-benzanum. Hann hefur alla tíð selst mjög treglega í Evrópu og Ameríku en gengið einna skást. í Arabaríkjunum. Á síðasta ári seldust yfir 100 þúsund eintök af Mercedes S bílum í heiminum en einungis fjögur þúsund VW Phaeton bílar.
Frestunin nú á nýju kynslóðinni gæti táknað það að Volkswagen leggi Phaeton bílinn senn endanlega á hilluna.