Nýr VW Polo jepplingur – frá Japan

Hjá Volkswagen leggja menn nú á ráðin um nýjan lítinn jeppling sem á að verða einhverskonar fjórhjóladrifsútgáfa af VW Polo, svipað og Tiguan er nokkurskonar jepplingsútgáfa af VW Golf. En til að þurfa ekki að hanna nýjan bíl frá grunni með tilheyrandi kostnaði þá ætla menn að stytta sér leið með því að taka nýja kynslóð Suzuki SX4 jepplingsins og setja á hann Volksvagenmerki og önnur VW sérkenni.

Þetta er í sjálfu sér hægur vandi því að frá 1999 hefur Volkswagen verið eigandi að 20 prósenta hlut í Suzuki og stefnir að því að auka hlut sinn um 10 prósent til viðbótar. Fyrir margt löngu átti General Motors umræddan 10% hlut en Suzukifélagið sjálft keypti GM út og átti hlutinn um skeið uns VW keypti hann í fyrra.

Suzuki hefur lengi framleitt prýðilega smábíla og lengstum skilað ágætum hagnaði af smábílasmíðinni meira að segja. Volkswagen hefur undanfarin ár marg lýst yfir vilja til að fara í auknum mæli út í smábílaframleiðslu og kaupin á hlutnum í Suzuki eru augljóslega til vitnis um að VW er full alvara, eins og nú er að koma í ljós.

http://www.fib.is/myndir/Suzuki-sx4.jpg
Suzuki SX4. Næsta kynslóð hans verður einnig
seld undir merkjum Volkswagen, Audi, Skoda
og Seat.

Þýska bílatímaritið Autobild segir frá þessu og upplýsir að ný kynslóð SX 4 jepplingsins frá Suzuki sé væntanleg 2013 og verði einnig markaðssett undir merkjum VW Polo, enda eru SX4 og Polo svipaðir að stærð. Suzuki hefur reyndar framleidd SX4 fyrir Fiat undir merkinu Fiat Sedici. Sá samningur milli Suzuki og Fiat rennur út á næsta ári og Autobild segir að hann verði ekki framlengdur.

Grunnplatan undir hinn nýja SX4 er hönnuð af verkfræðingum Suzuki, en þeir hafa langa reynslu að baki í hönnun lítilla fjórhjóladrifinna bíla. Fjórhjóladrifskerfið í honum er einnig frá Suzuki en auk þess að vera sterkt og öruggt í rekstri er það talsvert einfaldara og þar með ódýrara en þau fjórhjóladrifskerfi sem Volkswagen hefur notað hingað til.

En þessi nýi smájepplingur verður ekki bara markaðssettur sem Suzuki SX4 og Volkswagen. Fleiri innan VW fjölskyldunnar munu njóta góðs. Þannig má vænta smájepplinga frá Skoda, Audi og Seat á næstu árum sem allir eru í grunninn Suzuki SX4.