Nýrri Noregsferju seinkar

Nýrri stórri Noregsferju sem sigla á milli Hirtshals í Danmörku - viðkomustaðar Íslandsferjunnar Norröna - og Stavanger og Bergen í Noregi, seinkar og kemst ekki í gagnið fyrr en næsta vor. Með tilkomu hennar verða daglegar siglingar í boði á ferjuleiðinni Hitshals – Stavanger – Bergen – Hirtshals.

Ástæða seinkunarinnar er ekki tilgreint í frétt frá Fjord Line en samkvæmt frétt systurfélags FÍB í Danmörku er talið að hana megi rekja til skipasmíðastöðvarinnar sem byggir skipið og einnig byggði systurskipið sem þegar er komið í notkun eftir miklar seinkanir.

Bæði þykja þessi skip merkileg fyrir þær sakir að vélar þeirra ganga fyrir gasi en ekki olíu. Mengun frá þeim verður því aðeins brot þess sem kemur frá vélum þetta stórra skipa sem brenna svartolíu.

Úgerðarbærinn Hirtshals á Norður-Jótlandi er nú orðinn mikil miðstöð ferjusiglinga milli Danmerkur og Noregs og þangað siglir eina bílferjan sem tengir Ísland við meginland Evrópu – Norröna. Hin nýju skip Fjord Line heita Stavangerfjord (sem hóf siglingar  í júlí sl.) og systurskipið Bergensfjord sem tilbúið verður í vor. Skipin taka hvort um sig 1.500 farþega og 600 fólksbíla og í áhöfninni eru ca 100 manns.