Nýskráningar bíla 1971-2010

Á árunum 1971-2010 hafa orðið gríðarlegar sveiflur í bílainnflutningi til landsins. Innflutningur á fólksbílum varð á þessu tímabili mestur árið 1987 en þá var nýskráður 18.081 bíll. Þá var Toyota Corolla vinsælasti fólksbíllin á Íslandi en myndin er af slíkum vagni. Fæstar nýskráningar urðu hins vegar árið 2009 eða einungis 2.020. Næst fæstar urðu þær 35 árum áður, árið 1975 eða 2.888. Þetta og margt fleira athyglisvert kemur í ljós þegar rýnt er í nýskráningartölur bíla á Íslandi frá 1971 til 2010.

Sveiflur í innflutningi bíla til landsins eru þannig ekkert nýtt og bílakaup landsmanna hafa löngum sveiflast í takti við almennt efnahags- og atvinnuástand. Bílasöluárið mikla 1987 stendur enn upp úr sem mesta bílaár sögunnar. Ekki einu sinni bílaárið mikla 2005 náði að slá metið en litlu munaði þó því 2005 voru 18.059 fólksbílar nýskráðir. Af öllum bílainnflutningnum það ár voru 5.062 af nýskráningunum notaðir bílar. Metárið 1987 var hlutfall notaðra bíla í nýskráningum hins vegar lægra, eða 4.854.

Milli áranna 1988 og 1989 dró úr nýskráningum fólksbíla um næstum helming eða úr 12.206 í 6.226. Svipað gerðist 1982 og 1983. Fyrra árið voru nýskráningar 8.574 en árið eftir aðeins 4.650,

Um stóra uppsveiflu milli ára má svo nefna árin 1985, 1986 og 1987. 1985 voru nýskráningar fólksbíla 5.655, árið eftir 13.352 og 18.081 árið 1987.

Árið 2002 voru nýskráningar 6.938 árið eftir urðu þær 9.888, árið 2004 11.968 og svo kom metárið 2005 með 18.059. Árin 2006 (17.129) og 2007 (15.942) urðu einnig góð bílaár en svo fór að halla undan fæti. Árið 2008 urðu nýskráningar 9.033 og svo kom botnárið 2009 með aðeins 2.020 nýskráningar. Í fyrra tók svo landið að rísa lítillega á ný en þá urðu nýskráningar fólksbíla 3.106.