Nýskráningar fólksbifreiða fyrstu fjóra mánuði ársins eru alls 5.126

Nýskráningar fólksbifreiða fyrstu fjóra mánuði ársins eru alls 5.126. Á sama tíma í fyrra voru þær 4.620 þannig að aukningin nemur um 11%. Nýskráningar til almennra notkunar eru 53% og til bílaleiga 46,4%.

Flestar nýskráningar eru í Toyota það sem af er árinu, alls 890 bifreiðar sem er um 17,4% hlutdeild á markaðnum. Tesla er í öðru sæti með 711 bifreiðar sem er um 13,9% hlutdeild. Kia bifreiðar eru í þriðja sæti, alls 679 sem er um 13,2% hlutdeild. Í næstu sætum koma Dacia með 422 nýskráningar, Hyundai 295 og Volkswagen 226.

Fyrstu fjóra mánuði ársins eru flestar nýskráningar í hreinum rafbílum, alls 2.075 bílar, sem er um 40,5% hlutdeild á markaðnum. Þess má geta að fyrstu fjóra mánuði ársins í fyrra voru nýskráningar í hreinum rafbílum alls 1.613. Í öðru sæti eru hybrid bílar, alls 1.034, sem er 20,2% hlutdeild og í þriðja sæti eru dísilbílar með 717 nýskráningar sem gerir um 14.0% hlutdeild. Tengiltvinnbílar eru alls 663 og síðan koma bensínbílar með alls 634 nýskráningar sem er 12,4% hlutdeild.