Nýskráningar komnar yfir níu þúsund

Þegar tvær vikur eru eftir af þessu ári eru nýskráningar fólksbifreiða komnar yfir níu þúsund talsins. Fram til 19. desember eru nýskráningar alls 9.044 talsins. Miðað við sama tímabil í fyrra nemur samdrátturinn um 22%. Þetta kemur fram í tölum frá Bílgreinasambandinu.

Toyota er sem fyrr langsöluhæstur en í því merki eru nýskráningar 1.377 bifreiðar. Kia er í öðru sæti með 909 bifreiðar og Tesla í þriðja sætinu með 865 bifreiðar. Hyundai, Volkswagen, Mitsubishi, Suzuki og Nissan koma í næstu sætum.

Flestar nýskráningar eru í flokki rafmagnsbifreiða eða um 24,9% seldra bifreiða. Bensín bifreiðar eru 23,5% og dísil 19,6%. Tengiltvinn bílar eru 19,3% og hybrid 12,8%.

Þess má geta að fyrstu þrjár vikurnar í desember voru nýskráningar flestar í tengilstvinnbílum, alls 37,2%. Rafmagnsbílar voru 31,9% og dísilbílar um 13,6%. Nýskráningar í bensínbílum voru einungis 7,5%.