Nýstárlegt umferðaröryggisátak

 Í gær hófst átak sem snýst um það að vara akandi fólk við því að nota síma meðan það er akandi. Símanotkun, bæði símatal og önnur símanotkun í akstri, rænir stórum hluta af athygli ökumanns – athygli sem betur er komin við sjálfan aksturinn. Ítrekaðar rannsóknir hafa sýnt að símanotkun undir stýri sé svo háskaleg að svo sé komið að fleiri umferðarslys, þar með talin dauðaslys, megi nú víða rekja til farsímanotkunar en til áfengisneyslu.

Hið umrædda átak er samvinnuverkefni Samgöngustofu, Símans og framleiðslufyrirtækisins Tjarnargatan. Það heitir -Höldum fókus og er til þess gert að vara ökumenn, ekki síst þá yngri, við því að nota síma á meðan á akstri stendur. Verkefnið –Höldum fókus er óvenjulegt að því leyti að það fer einvörðungu fram á Facebook samskiptamiðlinum. Þar má fara inn á verkefnið og komast í gagnvirkt farsímasamband við „ökumanninn“ sem sem ber hið tilbúna nafn Áróra Magnúsdóttir. Notandinn á síðan sjálfvirk og gagnvirk símasamskipti við Áróru á meðan hægt er að fylgjast með henni aka bílnum á meðan á símasamskiptunum stendur. Ekki skal hér upp látið hvernig þau samskipti enda en sjón og heyrn er sögu ríkari.