Nýtt danskt bílablað

http://www.fib.is/myndir/Autobildlogo.jpg

AutoBild.dk heitir nýtt bílablað sem er að hefja göngu sína í Danmörku. Fyrsta tölublaðið er væntanlegt fimmtudaginn 16. mars nk. og annan hvern fimmtudag upp frá því. Blaðið er dótturblað hins þýska AutoBild og efnistökin verða svipuð. Áhersla er lögð á bílafréttir og bílaprófanir, ekki síst samanburðarprófanir. Þá verða í blaðinu fréttir af heimavelli í Danmörku sem tengjast bílum, umferðarmálum, stjórnmálum og fjármálum tengdum bílum og bílanotkun auk annars efnis sem er áhugavert fyrir notendur og áhugafólk um vélknúin farartæki.

Í frétt frá útgefendum segir að innihald AutoBild.dk verði að stærstum hluta framleitt í Danmörku en samvinnan við Axel Springer forlagið í Þýskalandi sem gefið hefur út AutoBild í 20 ár veiti blaðinu einstakan aðgang að vönduðu efni sem hingað til hefur aðeins verið aðgengilegt í bílablöðum á erlendum tungumálum. –Við ætlum að gefa út alvarlegt, spennandi og skemmtilegt fréttablað. Við ætlum ekki aðeins að vera fyrstir með fréttirnar heldur einnig veita lesendum bestu þjónustu sem völ er á með öflugri danskri ritstjórn, segir ritstjórinn Kurt Henriksen við Motormagasinet. Kurt Henriksen hefur um árabil verið bílablaðamaður á dagblaðinu Börsen.