Nýtt gerðaheitakerfi hjá Benz

Mercedes sendi frá sér frétt nú í morgun um nýja framtíðarstefnu í nafngiftum fyrir bíla sína. Meðal nýju gerðarheitanna skýtur upp kollinum gamalkunnugt heiti – Maybach.

Maybach er gamalt tegundarnafn frá millistríðsárunum sem lengi hefur verið í eigu Daimler, móðurfélags Mercedes. Fyrir sl. aldamót birtist nafnið sem sérstakt tegundarheiti á mjög dýrum lúxusbíl frá Mercedes Benz. Framleiðslu á honum var hætt fyrir nokkrum árum en birtist nú senn aftur á nýjum lúxusbíl sem heitir Mercedes-Maybach S 600. Sá bíll verður frumsýndur á næstu dögum á bílasýningunum í Los Angeles og í Guangzhou í Kína.

Mercedes-Maybach S 600 er mjög stór lúxusbíll handa þeim sem efni eiga á slíku. Hann verður byggður eftir pöntunum og sérsniðinn að óskum hvers og eins kaupanda og verður fáanlegur með öllum þeim aukabúnaði og lúxus sem völ er á á hverjum tíma.

En kannski eru stóru tíðindin þau að samtímis þessari afhjúpun á nýja lofurlúxusbílnum verður kynnt nýtt kerfi gerðarheita hjá Mercedes en það mun birtast smám saman eftir því sem hætt verður að framleiða eldri kynslóðir einstakra gerða og nýjar koma fram. Talsmaður markaðsdeildar Mercedes segir við evrópska fjölmiðla að eftir árið 2020 verði 30 gerðir Mercedes bíla í boði og a.m.k. 11 þeirra verði algerlega nýjar og án tengsla við neina af núverandi gerðum. Nýja gerðarheitakerfið verði gangsett strax á komandi ári en verði að fullu komið í gagnið eftir ca. 20 ár. Það eigi að vera miklu skýrara og gera það auðveldara að átta sig á því hvers konar bíll er að baki hverju gerðarheiti.

Kerfið er hugsað þannig að hver gerð verður auðkennd með þremur stórum bókstöfum (hástöfum) en véla- og drifbúnaður táknað með einum litlum bókstaf. Megin fólksbílagerðirnar verða fimm og hver auðkennd með A, B, C, E og S.  Allir jeppar og jepplingar fá samheitið GL. Síðan kemur þriðji stóri bókstafurinn sem tengir viðkomandi jeppa/jeppling við einhverja fimm grunngerðanna eins og hér má sjá: GLA = GL A-Klasse

 • GLC = GL C-Klasse (núverandi GLK)
 • GLE = GL E-Klasse (núverandi ML)
 • GLE Coupé = GL E-Klasse Coupé (nýr bíll)
 • GLS = GL S-Klasse (núverandi GL)
 • G = óbreytt

Frá 2016 munu sportbílarnir fá auðkennið SL sem fyrstu tvo bókstafina. Sá sem nú heitir SLK mun framvegis heita SLC.

Lágstafirnir sem koma á eftir hástöfunum þremur á skottloki bílanna tákna síðan hverskonar vélar- og drifbúnaður er í bílnum. Bensínvélarnar verða ekki táknaðar sérstaklega en aðrar vélar verða táknaðar svona:

 • c táknar gas
 • d táknar dísilvél
 • e táknar rafmagn (tengiltvinnbílar og rafbílar)
 • f táknar efnarafal
 • h táknar tvinnbíla sem ekki eru tengiltvinnbílar (falla undir e)
  http://fib.is/myndir/Benz-nofn.jpg