Nýtt og endurbætt slysakort tekið í notkun á vef Samgöngustofu

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið stóð fyrir morgunverðarfundi um umferðaröryggi í Norræna húsinu í morgun. Þar opnaði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, nýtt og endurbætt slysakort á vef Samgöngustofu en á kortinu eru upplýsingar um öll umferðarslys sem orðið hafa á Íslandi frá 2007 til ársloka 2018.

Upplýsingar í þessum gagnagrunni eru nýttar til að fækka slysum, efla forvarnir og forgangsraða framkvæmdum.

Fram kemur í tilkynningu frá Samgönguráðuneytinu að á fundinum var kynnt skýrsla Samgöngustofu um umferðarslys árið 2018. Þar ber hæst að alvarlegum slysum og banaslysum vegna ölvunar- og fíkniefnaaksturs fjölgar og sömuleiðis vegna framanákeyrslu.

Á nokkrum öðrum sviðum fækkaði slysum miðað við næstu tvö ár á undan. Á fundinum var einnig flutt erindi um það hvernig Vegagerðin nýtir upplýsingar um umferðarslys til að forgangsraða framkvæmdum og loks um umferðaröryggisáætlun Reykjavíkur og aðgerðir hennar undir yfirskriftinni „Öryggi óháð ferðamáta“.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði í ávarpi sínu á fundinum afar þýðingarmikið að nýta upplýsingar og gögn um umferðarslys til að varna slysum og bæta umferðaröryggi. Árlega væri umferðaröryggisáætlun uppfærð á grundvelli slysaskráninga. „Á aðeins fimm árum hefur umferðin á þjóðvegunum aukist um ríflega 40%.

Umferðarslys og óhöpp eru talin kosta yfir 50 milljarða á ári, og er þá ekki talinn sá sársauki og sorg sem slysunum fylgja. Því er til mikils að vinna að draga úr slysum með öllum tiltækum ráðum. Því legg ég áherslu á að mannslíf og heilsa verði ávallt höfð í öndvegi og öryggi metið framar en ferðatími í forgangsröðun.“

Ráðherra sagði að ríkisstjórnin hafi verið mynduð um framsýn markmið um uppbyggingu á innviðum og því tengdu verði ríflega 120 milljörðum króna varið til nauðsynlegra framkvæmda í vegakerfinu á næstu fimm árum, sem er veruleg hækkun frá því sem var. Meðal aðgerða sem brýnt væri að koma í framkvæmd væri að aðskilja akstursstefnur á umferðarþyngstu þjóðvegum. „Nefna má að umferðarslysum á Reykjanesbrautinni hefur fækkað um 40% frá því að akstursstefnur voru aðskildar.“

Skýrsla um umferðarslys árið 2018
Árlega eru teknar saman skýrslur um umferðarslys en þær eru notaðar til stefnumörkunar í baráttunni fyrir bættu umferðaröryggi. Skýrsla fyrir árið 2018 var kynnt ítarlega á morgunverðarfundinum. Þegar á heildina er náðust mun fleiri markmið um umferðaröryggi en árið áður sem einnig var betra en árið 2016. Árið 2016 var á hinn bóginn sérstaklega slæmt ár í umferðinni og samanburður við árin þar á undan telst ekki sérlega hagstæður fyrir árið 2018.

Fram kemur í tilkynningu á vefsíðu Samgönguráðuneytisins að meðal þess sem hæst ber í skýrslunni er að alvarlegum slysum og banaslysum vegna ölvunar- og fíkniefnaaksturs fjölgar og sömuleiðis vegna framanákeyrslu. Á hinn bóginn fækkar alvarlegum slysum og banaslysum sem ungir ökumenn (17-20 ára) eiga aðild að. Einnig fækkar þeim lítillega sem slasast alvarlega eða látast sem eru ýmist á bifhjóli, reiðhjóli eða gangandi í umferðinni. Slysum á erlendum ferðamönnum fækkaði þegar á heildina er litið eftir mikla aukningu síðustu þrjú ár á undan.

Helstu atriði úr slysaskýrslu 2018

 • Alls slösuðust og létust 1289 manns árið 2018.
 • Þar af slösuðust 1088 lítillega, 183 alvarlega en 18 létust.
 • Flest slys og óhöpp í umferðinni verða á virkum dögum á milli kl. 16 og 17.
 • Banaslysin átján urðu í fimmtán slysum.
 • Af þeim sem létust á árinu voru sex konur og tólf karlmenn.
 • Af þeim sem létust voru níu Íslendingar, sex erlendir ferðamenn og þrír erlendir ríkisborgarar búsettir hérlendis og létust því jafnmargir Íslendingar og erlendir ríkisborgarar.
 • Tveir létust í þéttbýli en sextán í dreifbýli.
 • Af fimmtán banaslysum áttu karlmenn sök að máli í fjórtán tilfellum.
 • Ellefu af átján látnum voru 36 ára eða yngri.
 • Fjöldi látinna var 18 manns og eru nú komin fjögur ár í röð þar sem fjöldi látinna er á bilinu 16-18 en árin þar á undan var létust iðulega færri.
 • Flest slys og óhöpp verða á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Þar á eftir eru annars vegar tvö önnur stór gatnamót við Miklubraut (Háaleitisbraut og Grensásvegur) og hins vegar þrjú gatnamót eða hringtorg í Hafnarfirði - hringtorg Flatahraun/Fjarðarhraun/Bæjarhraun, hringtorg Reykjanesbraut/Lækjargata og gatnamót við Kaplakrika (Reykjanesbraut/Fjarðarhraun).

Víti til varnaðar: Upptaka af morgunverðarfundi um umferðaröryggi
Slysakort Samgöngustofu
Skýrsla um umferðarslys árið 2018
Ræða ráðherra á morgunverðarfundinum