Nýtt vörumerki ódýrra Fiatbíla

http://www.fib.is/myndir/FiatTopolino.jpg
Fiat Topolino árgerð 1937.

Stjórnendur Fiat á Ítalíu íhuga að stofnsetja sérstakt vörumerki fyrir litla og ódýra bíla. Trúlegt tegundarheiti er gamalt og klassískt nafn frá Fiat – Topolino.  Verði af þessum hugmyndum verður þessu nýja vörumerki hleypt af stokkunum árið 2011.

Þetta kom fram í máli forstjóra Fiat; Sergio Marchionni á málþingi sem tímaritið Automotive News Europe hélt nýlega.  Forstjórinn gaf ekkert meira upp um málið en nafnið og að verið væri að þróa ódýran smábíl í verkskmiðju Fiat í Brasilíu. Bíllinn gæti orðið tilbúinn til framleiðslu 2011 og yrði hann seldur í Evrópu yrði verðið í kring um 6000 evrur.

Topolino nafnið kom fram á smábíl frá Fiat um miðjan fjórða áratug síðustu aldar. Topolino var einn minnsti fjöldaframleiddi bíll millistríðsáranna og eiginlega fyrirrennari Fiat 500 smábílsins sem kom fram um hálfum áratug eftir að heimsstyrjöldinni síðari lauk. Sá ágæti bíll átti stóran hlut í að koma evrópsku fjölskyldufólki á fjögur hjól eftir stríðið og er jafnframt fyrirrennari og fyrirmynd hins núverandi Fiat 500.