Ó-útsprungnir loftpúðar

The image “http://www.fib.is/myndir/LandCruiser100.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Toyota Land Cruiser, samskonar bíll og fjallað er um í greininni.

Helstu fjölmiðlar landsins hafa mikið fjallað um bílveltu Steingríms J. Sigfússonar undanfarið og þau meiðsli sem hann hlaut í slysinu. Í fréttum af eftirmálum slyssins hefur mikið verið gert úr þvi að loftpúðarnir við framsætin sprungu ekki út og í frétt DV í morgun, föstudaginn 20. janúar stendur eftirfarandi: „Stóran hluta áverkanna má rekja til þes að loftpúði í jeppa Steingríms blés ekki út við áreksturinn. Eru því mestir áverkar á miðjum líkamanum.“
Þessi fullyrðing er illskiljanleg þeim sem nokkur skil kunna á öryggisbúnaði bíla, þar á meðal loftpúðum. Í fyrsta lagi varð ekki árekstur í slysatilfelli þingmannsins og í öðru lagi er erfitt að hugsa sér á hvern hátt loftpúðinn í stýri bílsins hefði átt að forða ökumanninum frá þeim meiðslum sem hann hlaut í slysinu, hefði hann sprungið út. Engu er líkara en að fréttafólkið sé að reyna að finna eitthvað sem skella mætti skuldinni af óhappinu á. Þeir einblína á loftpúðana, en því miður, þeir horfa í vitlausa átt.
Loftpúðar við framsæti bíla, eins og vissulega voru í bíl þingmannsins, eru til þess að verja ökumann og framsætisfarþega ef árekstur verður. Skynjarar fyrir þessa loftpúða eru í framstuðara og þegar högg kemur á þá, blásast loftpúðarnir upp á örlitlu sekúndubroti í snöggri sprengingu þannig að þeir eru uppblásnir áður en áreksturinn er að fullu afstaðinn og bíllinn búinn að nema staðar. Þar sem enginn árekstur varð og ekkert umtalsvert högg kom framan á jeppa þingmannsins, þá vitanlega sprungu púðarnir ekki út, enda var þeirra engin þörf því að bíllinn valt, hann endastakkst ekki. Þvert á móti er hugsanlegt að hefði loftpúðinn fyrir framan ökumann sprungið út einhverntíman meðan á ósköpunum stóð, hefði það frekar gert illt verra.
Svo virðist sem þeir blaðamenn sem einblínt hafa á loftpúðana í bíl Steingríms J. Sigfússonar hafi þá hugsýn af loftpúðum að þeir blási út og séu síðan uppblásnir og hefðu því getað varið hann meiðslum meðan bíllinn rúllaði niður brattan og háan vegarkantinn. En svo er alls ekki. Loftpúðar í bílum eru alls ekki lofþéttir. Þeir eru þéttofnir úr kevlar-efni sem lítur svipað út og efni í strigapokum. Það er svo sprengihleðsla sem snöggblæs í þá lofti sem síðan tæmist úr þeim á um hálfri sekúndu.
Það sem þetta umrædda slys sýnir þvert gegn því sem ætla mætti af öllum þessum loftpúðafréttum er að bíllinn sýndi sig að vera í ágætu lagi. Loftpúðarnir áttu ekkert að springa út og þeir gerðu það heldur ekki. Það sýnir líka að bíllinn, sem var um fimm ára gamall Toyota Landcruiser 100, var það vel byggður og sterkur að hann náði að vernda ökumanninn í þessum hremmingum - þakið féll ekki saman - öryggisbeltið hélt, ekkert í innréttingunni eða yfirbyggingunni losnaði og þetta skipti sköpum. En hvað þá með veginn sjálfan? Hver var hans þáttur í þessu?
Flutningabílstjórar sem voru á ferðinni á slysstaðnum um svipað leyti og þingmaðurinn hafa sagt fréttavef FÍB að vegurinn á og við slysstaðinn sé þekktur hálkustaður. Og þótt vegöxlin sé þröng þarna og hár og brattur kantur af veginum niður að ánni, þá er þarna ekkert vegrið til að varna slysum eins og þessu – til að varna því að stjórnlausir bílar fari útaf. Er það ekki augljósari þáttur í því hvernig fór, heldur en loftpúðar sem ekki sprungu út?
Stefán Ásgrímsson.