Obama Bandaríkjaforseti krefst mengunarminni og sparneytnari bíla strax

http://www.fib.is/myndir/Barack%20Obama.jpg
Barack Obama Bandaríkjaforseti.

Dagblaðið New York Times greindi frá því í gær að Obama Bandaríkjaforseti hafi mælst til þess við löggjafarþing einstakra ríkja um að þau feti í fótspor Kaliforníu og 13 annarra Bandaríkja um að setja ný og miklu strangari viðmiðunarmörk fyrir útblástur og eldsneytiseyðslu bíla. 

Tilmælin eru í samræmi við málflutning forsetans í kosningabaráttunni um þessi mál og alger viðsnúningur frá stefnu fráfarandi forseta. Samkvæmt henni fær Kalifornía og önnur ríki Bandaríkjanna heimild til að setja eigin reglur um útblástur og mengun frá bifreiðum og mun strangari en alrikislög kveða á um. Bush og ríkisstjórn hans voru því algerlega mótfallin og því höfðaði ríkisstjóri Kaliforníu, repúblikaninn Arnold Schwarzenegger (Arnaldur frá Svörtuegg), mál fyrir alríkisdómstóli til að fá ákvörðun fyrrverandi forseta hnekkt.

Tilmæli Obama eru í rauninni skipun til umhverfisverndarstofnunar Bandaríkjanna (Environmental Protection Agency). um að falla frá tilskipun Bush, fyrrverandi forseta, um að neita Kaliforníuríki um að setja á hert mengunarmörk fyrir bíla í ríkinu. Fastlega er reiknað með að stofnunin verði við kröfu nýs forseta og snúi dæminu við og þar með falli Kaliforníuríki frá málssókn sinni.

En um leið og það gerist munu bílaframleiðendur í Bandaríkjunum þurfa að endurskipuleggja í hvelli bíla- og vélaframleiðslu sína til að geta mætt stórhertum kröfum um bæði mengun og eyðslu. Í forsetatíð Bush ráku bandarísku bílaframleiðendurnir harðan áróður meðal þingmanna og embættismanna og fyrir dómstólum fyrir því að ekki yrði farið út í að herða mengunar- og eyðslukröfur á hendur bílaframleiðendum. New York Times segir að allur slíkur mótþrói sé þýðingarlaus nú. Á hann verði ekki hlustað lengur. Bandaríkin ætli ekki lengur að vera á skjön við alþjóðlegar samþykktir og reglur í þessum efnum.