Ódrepandi Toyota?

Toyota Hilux palljepparnir eru heimsþekktir fyrir slitþol og endingu og hafa lengi gert það gott hér á landi. Margir muna þegar stjórnendur skemmtiþáttarins TopGear tóku að sér að drepa slíkan bíl. Hann var fyrst skilinn eftir á fjöru á Ermarsundsströnd og þegar aðfallið kom fór hann á kaf í sjó. Næst var reynt að kveikja í honum og að síðustu að koma honum fyrir á þaki háhýsis sem sprengja átti í loft upp. Ekkert af þessu drap bílinn og alltaf fór hann í gang. 

http://www.fib.is/myndir/Hilux-Invinc-2.jpg

Hilux hefur þau 45 ár sem hann hefur verið framleiddur í yfir 15 milljón eintökum, verið notaður í margt, ekki síst þar sem þörf er á sterkum og gangvissum vinnuhesti. Hann sést oft í fréttum af hernaði og hjálparstarfi við erfiðar aðstæður og sömuleiðis í torfærum á fjöllum og jöklum þar sem aðstæður kalla á sterkt og gangvisst farartæki.

Nú ætlar Toyota að hefja sölu í Evrópu á nýrri sérútgáfu sem kallast því sterka nafni -Hinn ósigrandi eða Invincible. Þetta verður vandaðasta gerð Hilux með leðurinnréttingu, háu loftinntaki og ýmsum krómhlutum á ytra byrðinu og öðru skrauti. Vélar verða 2,5 lítra eða 3ja lítra túrbínudísilvélar og svo auðvitað fjórhjóladrif. (Reyndar verður bara afturhjóladrif einnig í boði, En spurning hvort hægt sé að kalla tveggja hjóla drifinn Hælúx ósigrandi?)

Hilux hinn ósigrandi mun einnig fást sjálfskiptur en sjálfskiptingin fæst einvörðungu við 3ja lítra vélina.  Í frétt um bílinn segir ekkert um hversu öflugar þessar vélar verða, en miðað við nýjustu Hælúxana þá eru vélarnar í þeim nú  144 og 171 hestafla.