Ódýr þriggja hjóla bíll 2014?

Bandarískt nýsköpunarfyrirtæki hefur fengið umráð yfir gamalli samsetningarverksmiðju General Motors í Louisiana og hyggst framleiða í henni nýjan þriggja hjóla bíl sem heitir Elio. Bíllinn er sagður munu kosta 6.800 dollara, eða um 880 þúsund kr. Hann muni brenna bensíni og nota af því tæpa þrjá lítra á hverja hundrað kílómetra og koma á markað upp úr miðju ári 2014. Frá þessu er greint í The Detroit Bureau.

Bíllinn er tveggja manna borgarfarartæki fyrst og fremst og er forsala á því hafin á heimasíðu Elio. Nokkra furðu vekur því að á þessari sömu heimasíðu er litlar sem engar upplýsingar að finna um sjálft farartækið og tæknibúnað þess. Sjá má þó að burðarvirkið er röragrind og inni í farartækinu eru loftpúðar til verndar þeim sem inni eru.