Ódýrasti Fólksvagninn kominn til Evrópu

The image “http://www.fib.is/myndir/VWFox.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
VW Fox.
Á bílasýningunni í Leipzig í gamla A-Þýskalandi sem er nýlokið var sýndur í fyrsta sinn í Evrópu hinn nýi smábíll frá Volkswagen, VW Fox. sem kemur í stað smábílsins Lupo sem hætt er að framleiða. Fox er smíðaður í Brasilíu.
Grunnverð Fox er um 9 þúsund evrur þannig að verðið hér myndi liggja rétt yfir milljóninni. Auto Motor & Sport í Þýskalandi bendir hins vegar á að á 9 þús. evra verðinu sé Foxinn í algerri „Harlemútgáfu.“ Með þeim lágmarksbúnaði sem Evrópumenn geri kröfu til, hækki verðið hins vegar snarlega - einum of snarlega að mati tímaritsins. Auk þess verði kaupendur að velja með bílnum nokkurskonar litapakka sem fólginn er í sama lit á bílnum sjálfum, baksýnisspeglum og stuðurum, sem kosti 95 evrur. Með þessum skyldu-litapakka laumist verðið upp fyrir 9 þúsund evra múrinn og því sé það blekking að auglýsa bílinn á verði undir 9 þúsund evrum.
Auto Motor & Sport segir að vilji kaupandi fá færanlegt aftursæti í Foxinn kosti það aðrar 95 evrur, samlæsing og rafdrifnar rúður kosti 500 evrur, ESP stöðugleikabúnaður kosti 400 evrur, aflstýri og stillanlegt stýrishjól kosti 450 evrur, hliðarloftpúðar kosti 255 evrur og hita/kælikerfi kosti 1.225 evrur. Og vilji maður nú fá bílinn líka með rafknúinni topplúgu og útvarpi með geislaspilara og inniljósi sem deyfist og slokknar sjálfvirkt þegar gengið er frá bílnum, þá kosti það 1.206 evrur.
Þær tölur sem hér hafa verið tíundaðar eiga við útgáfuna með minnstu vélinni sem er 1,2ja lítra, 55 hestafla bensínvél. En Fox fæst líka með 1,4 lítra bensínvél sem er 75 hestafla og með henni kostar bíllinn í ódýrustu útgáfu 10.400 evrur. Loks fæst hann með 1,4 lítra 70 ha. dísilvél. Með henni er byrjunarverðið 11.400 evrur.