Óeðlilegar hækkanir á iðgjöldum bílatrygginga

Útttekt FÍB sýnir að iðgjöld bílatrygginga hafa hækkað óeðlilega mikið á sama tíma og umferðarslysum hefur fækkað. Munurinn er sláandi; iðgjöld ábyrgðartrygginga hafa hækkað um 38% frá 2015 en á sama tíma hefur slösuðum fækkað um 23% og umferðarslysum um 15%. Þetta kemur fram í umfjöllun um málið í FÍB blaðinu sem var að koma úr prentun og er að berast félagsmönnum þessa dagana.

Í gegnum tíðina hafa tryggingafélögin réttlætt iðgjaldahækkanir vegna fjölgunar slysa og aukins tjónakostnaðar. Á árunum 2017-2018 fór tjónum að fækka verulega. Tryggingafélögin hafa ekkert tillit tekið til þess, heldur þvert á móti haldið áfram að hækka iðgjöldin.

Útkoman hefur verið afar hagfelld fyrir tryggingafélögin, sem sitja nú á tæplega 50 milljarða króna bótasjóði sem þau hafa safnað með ofteknum iðgjöldum. Þennan sjóð ávaxta tryggingafélögin í eigin þágu. Á sama tíma skila þau methagnaði hvert á fætur öðru eins og fréttir bera með sér. Þessi grímulausa sjálftaka tryggingafélaganna er að öllu leyti á kostnað bíleigenda.

Fjármálaeftirlit Seðlabankans er eina opinbera stofnunin sem gæti komið böndum á oftöku tryggingafélaganna, en gerir það ekki. Þvert á móti hvetur eftirlitið félögin ýmist til að hækka iðgjöld eða gæta þess vel og vandlega að fara ekki í verðsamkeppni.