Of kalt og of misheitt malbik?

Varmaeinangraðir malbiksvagnar með búnaði sem ýtir farminum aftur úr vagninum í útlagningarvélina.
Varmaeinangraðir malbiksvagnar með búnaði sem ýtir farminum aftur úr vagninum í útlagningarvélina.

Alkunna er hversu illa malbik endist á Íslandi. Það grotnar í sundur og hættulegar, djúpar og krappar holur myndast í það, hjólför myndast tiltölulega fljótt í nýlagt malbik, jafnvel inni á útskotum fyrir strætisvagna þar sem aldrei koma önnur farartæki en vagnarnir, sem aldrei eru á negldum vetrarhjólbörðum.

Margar kenningar og misjafnar um ástæður þessa hafa verið viðraðar í áranna rás: Fyrir nú utan það að viðhald vega og gatna hefur verið vanrækt um árabil þá eru kenningarnar í stórum dráttum þessar: Sú fyrsta er um að tjaran í malbikið sé léleg, önnur sú að grjótmulningurinn í malbikinu sé of mjúkur, lofslag á Íslandi með tíðum umskiptum í veðri, hitastig sem rokkar upp og niður kring um núllið að vetrarlagi, saltaustur á götur og vegi, lélegt undirlag vega og of þunn malbiksklæðning. Loks eru það svo negldu vetrardekkin sem sumir fullyrða að sé versti einstaki skaðvaldurinn. En gæti það verið að einn veigamesta þáttinn vanti í þessa upptalningu?

Útlagning malbiksins

Hérlendis er nú staddir tæknimenn frá þýsku fyrirtæki sem framleiðir sérstaklega varmaeinangraða malbiksvagna til að flytja malbik frá framleiðslustað þangað sem það er lagt út. Annar þeirra; Martin Fliegl segir í samtali við fréttavef FÍB að einn mikilvægasti þátturinn í endingu malbiks sé sá að hiti þess sé réttur og sem jafnastur þegar það er lagt út á veginn. Sé það flutt úr verksmiðjunni á útlagningarstaðinn í óeinangruðum vögnum eða á vörubílpöllum, jafnvel um langan veg, nái það að kólna, jafnvel verulega og mest þar sem það snertir óeinangrað stálið eða álið í botni og í hliðum flutningavagnsins/pallsins og efst, ef ekki er notuð einangrandi yfirbreiðsla sem dregur úr vindkælingu. Ef malbikið er mjög misheitt þegar því er sturtað í útlagningarvélina verður það til þess að storknunin verður misjöfn og þeir blettir sem kaldastir voru í útlagningunni er eru þeir sem fyrst leysast í sundur þannig að holur takast að myndast.

Varmaeinangraðir vagnar

Martin Fliegl segir að til að ná sem bestri endingu þurfi malbikið að vera minnst 180 gráðu heitt þegar það er losað í útlagningarvélarnar og hitinn í malbikshlassinu sé sem jafnastur. Sé það verulega misheitt, vilji kaldara malbikið til jaðranna og efst í hlassinu aðskiljast eftir kornastærð, ekki síst þegar hlassinu er sturtað í útlagningarvélarnar. Til að hindra slíkt sem mest og malbikið verði sem einsleitast („homogenic“), séu varmaeinangraðir flutningavagnar nauðsynlegir og að ekki þurfi að sturta úr þeim heldur sé í þeim búnaður sem ýtir malbikshlassinu afturúr vögnunum.

Aðspurður um kostnaðarauka við lagningu slitlags sagði Martin Fliegl að hann væri vissulega nokkur en sá kostnaðarauki skilaði sér margfaldlega til baka í endingarbetra malbiki og þar með stórlækkuðum viðhaldskostnaði. Það væri reynslan frá Danmörku og Svíþjóð þar sem um árabil hefur verið skylt að nota þennan búnað.

Martin Fliegl verður með fyrirlestur og svarar fyrirspurnum  um þessi mál í húsakynnum Vegagerðarinnar, Borgartúni 5-7 í dag, þriðjudaginn 12. jan. sem hefst kl 15:00.