Öflug nettenging frekar en bíll

Svíar aka minna og minna og ungt fólk hefur alls ekki sama bílaáhuga og foreldrarnir höfðu þegar þeir voru á sama aldri. Unga fólkið kýs fremur að verja fé sínu í öflugri tölvur og hraðvirkari nettengingu en nýjan bíl og til að komast leiðar sinnar notast það við almannasamgöngur. AM&S í Svíþjóð greinir frá þessu.

Bílaumferð í Svíþjóð árið 2011 varð 4% minni en árið 2008. Þetta er talsverður samdráttur og hans gætir víða, t.d. í fjölda bíla í umferð, endingu bíla, hagvexti og í hverskonar bíla- og umferðartengdri þjónustu sem og almennri þjónustu við neytendur og breyttu innkaupamynstri heimilanna.

Fram að þessu hefur verið beint samband milli tekna og aksturs. Þegar tekjurnar jukust, fór fólk að aka meira. Þetta samhengi hefur nú rofnað í kjölfar verðhækkananna á eldsneyti undanfarin ár.

En mest áhrif til minni bílanotkunar er þó sú sem fyrr er nefnd: Hún er sú að áhugi yngri kynslóðanna fyrir bílum er minnkandi.  Sú kynslóð sem nú er að fara á eftirlaun leit alla tíð á bílinn og bifreiðaakstur sem sjálfsagðan og eðlilegan hluta sjálfrar tilverunnar. Þessi minnkandi áhugi yngri kynslóðanna fyrir bílum er reyndar ekkert einsdæmi í Svíþjóð, heldur gætir hans um alla Evrópu, líka hér á Íslandi. The Economist hefur einmitt fjallað um hann nýlega. Þá hélt fyrrum yfirhönnuður BMW fyrirlestur hér á landi fyrir tæpum tveimur árum þar sem hann fjallaði einmitt um minnkandi áhuga ungs fólks fyrir bílum og fyrirsjáanlegar breytingar á bílanotkun og bílaeign í náinni framtíð.