Öflugri Tesla rafbíll

http://www.fib.is/myndir/Tesla_roadster2.jpg
Tesla rafmagnssportbíll.

Endurbætt útgáfa rafdrifna sportbílsins Tesla er enn aflmeiri og sneggri en sú fyrsta. En þrátt fyrir meira afl skila endurbæturnar, þeirra á meðal nýr drifbúnaður því að bíllinn kemst nú lengra á hverri rafhleðslu en áður.

Tesla er einn athyglisverðasti rafbíll sem fram hefur komið til þessa. Sjálfur bíllinn er í raun Lotus Exige en í stað bensínmótors er rafmótor og líþíum-jónarafhlöður sjá mótornum fyrir orku. Rafmótorinn er með nánast algerlega flata togkúrfu sem þýðir það að hann gefur fulla vinnslu nánast um leið og hann byrjar að snúast en hámarksvinnslan er við 14 þúsund snúninga. Ekki er því þörf á flóknum gírkassa heldur dugar einungis einn gír.

Í nýju útgáfunni hefur gírhlutfalli þessa eina gírs verið breytt úr 7,4:1 í 8,27:1 auk þess sem þyngd gírkassans hefur verið minnkuð um sjö kíló og er sá nýi 45 kíló en sá eldri var 52 kíló. Þrátt fyrir það er hann sagður sterkari en eldri kassinn var og þoli vel það 400 Newtonmetra átak sem rafmótorinn gefur.

Ennfremur hefur sjálfum mótornum verið breytt. Breytingarnar felast fyrst og fremst í því að í vafningum hans og háspennuköplum er nú hreinn koparvír í stað víra úr kopar-álblöndu. Það þýðir að leiðni víranna er betri en áður, minni hiti myndast og vinnslan eykst um 33 prósent.

Afl nýju útgáfunnar hefur ekki verið gefið upp en séu þessar upplýsingar bornar saman við hestaflatölu eldri gerðarinnar sem var 248 hestöfl og 286 Nm nánast við gangsetningu, má gera ráð fyrir að nýja gerðin sé um 300 hestöfl. Þyngd Tesla er um 1,2 tonn þannig að hlutfall afls og þyngdar er einungis 4 kíló á hestafl. Bíllinn kemst hátt í 400 kílómetra á rafhleðslunni.

Á næsta ári er ætlunin að markaðssetja Tesla sportbílinn í Evrópu og er gert ráð fyrir að verðmiðinn fyrir utan skatta og gjöld verði í kringum 10 mílljónir ísl. kr. Þegar liggja fyrir pantanir á rúmlega þúsund bílum þannig að eftirspurn virðist vissulega vera til staðar.
Ennþá er tæpast hægt að tala um framleiðslu á þessum merkilega sportbíl og enn síður fjöldaframleiðslu, því að hann er, eins og svo margir dýrir sportbílar, handbyggður. Alls hafa um 40 bílar verið seldir fram að þessu og alveg nýlega opnaði Tesla sölustað í Los Angeles. En eftirspurnin er greinilega til staðar og hún gerir sjálfsagt ekki annað en að aukast með hækkandi olíuverði.