Ofurbílarnir ofurdýrir í rekstri

Ofurbílarnir ofurdýrir í rekstri
Ofurbílarnir ofurdýrir í rekstri

Það er ekkert smáræði sem það kostar að eignast og gera síðan út ofurbíl. Sænska Aftonbladet hefur tekið saman yfirlit yfir árlegan kostnað við að þjónusta þrjá rándýra ofurbíla og einn ódýran smábíl og munurinn er mikill.

Samanburðarbíllinn er Kia Picanto en ofurbílarnir eru McLaren F1, Ferrari Enzo og Bugatti Veyron. Það er gríðarlega dýrt að þjónusta ofurbílana þrjá og halda þeim við, smyrja þá, skipta um olíur og aðra vökva á þeim og endurnýja hjólbarðana og algengustu slithluti. Verðlagið á þessum atriðum sem varða Kia smábílinn er bara lítið brot af þeim ósköpum, en ofurbílarnir hafa eitt framyfir Kia Picanto – þeir halda verðgildi sínu og gott betur en það. Picanto lækkar hins vegar stöðugt í verði og gott viðhald breytir litlu sem engu þar um.

mclarenf1
McLaren F1

Breski ofurbíllinn McLaren F1 er mikill dýrgripur. Hann er ekki framleiddur lengur og var heldur ekki byggður í sérlega mörgum eintökum sem mörg hver ganga af og til kaupum og sölum. Gott eintak sem haldið hefur verið vel við fæst varla fyrir lægra verð en svona rúmlega einn og hálfan milljarð ísl. króna. Og síðan þarf að halda bílnum við og það kostar að mati Road & Track ekki undir tæpum fjórum milljónum króna.

Meðal þess sem þarf að gera er að smyrja og skipta um olíur á vél og gírkössum. Venjuleg smurning og olíuskipti á vél kosta tæpa 1,1 milljón króna og nýr dekkjagangur kominn undir bílinn kostar rúma 1,5 milljón króna. Svo er við þetta að bæta að til að F1 haldi fullu verðgildi sínu gengur ekki að láta hann í hendur hvaða verkstæðis eða smurstöðvar sem er heldur í hendur sérmenntaðra bifvélavirkja og helst á sérstök verkstæði sem sérhæfð eru í McLaren F1 eða þá allra helst til McLaren verksmiðjunnar í Woking í Englandi. Þar tekur það allt að sex vikur að yfirfara bílinn og þjónusta hann – fyrir utan þann tíma sem tekur að koma bílnum þangað og til baka til eigandans.

ferrarienzo
Ferrari Enzo

Ferrari Enzo var flaggskip og stolt Ferrari bílasmiðjunnar á N. Ítalíu. Aðeins voru framleidd 499 eintök af honum þannig að sérhver Ferrari Enzo er alger dýrgripur og endursöluverðið þar eftir sem og allt viðhald og viðurgerningur við þessa eðalvagna.

Það kemur því á óvart að venjuleg smurning og olíuskipti er ekkert rosalega dýr í þessu samhengi. Verðmiðinn á þeirri þjónustu er tæplega 245 þúsund kr. En sé vinnan hins vegar unnin samkvæmt ítrustu forskrift Ferrari og allar olíur og vökvar yfirfarnir, sýni tekin og metin og bætt á eða skipt um eftir þörfum þá rýkur verðið aldeilis í hæstu hæðir eða upp í um 1,15 milljón krónur.

Ef skipta þarf um kúplingu kostar hún 765 þúsund kall sem eiginlega er ekki svo mikið í samanburði við hvað kostar að endurnýja allt í bremsunum. Það kostar nefnilega 5,2 milljónir króna.

bugatti-veyron
Bugatti Veyron

Gamla franska lúxusmerkið Bugatti sem nú er í eigu Volkswagen endurfæddist í ofurbílnum Bugatti Veyron sem sagður er vera hraðskreiðasti og aflmesti fjöldaframleiddi bíll bílasögunnar og jafnframt einn dýrasti bíll í bæði kaupum og rekstri sem um getur. Árlegt lágmarks þjónustuviðhald á bílnum sem er aðallega smurning og olíuskipti kostar 2,7 milljón krónur. Þar af kosta olíuskiptin ein 2,6 milljónir.

Bugatti mælir með því að dekkjagangurinn sé endurnýjaður á fjögur þúsund km fresti enda slítur ofurafl bílsins og mikill hraðakstur dekkjunum ótæpilega. Bara dekkin ein án umfelgunar kosta 4,3 milljónir kr. Bugatti mælir einnig með því að við fjórðu hverja endurnýjun dekkjagangs séu felgurnar, sem er úr magnesíum, einnig endurnýjaðar og það kostar sannarlega sitt.

Magnesíumfelgurnar eru aðeins misdýrar eftir því hvaða undirgerð Bugatti Veyron er um að ræða. Þær algengustu kosta tæplega 9,2 milljónir kr. þannig að dekkja- og felguendurnýjunin eftir 16 þús. km akstur leggur sig á hátt í 13,8 milljónir kr. Þetta er hrikalegar tölur og ekkert undarlegt að það er á fárra færi að eiga og reka þennan bíl og hreinlega viðburður að sjá Bugatti Veyron á ferð utan auðugustu olíuríkjanna.

kia-picanto-2015
Kia Picanto

Til samanburðar er rétt að líta á Kia Picanto. Þessi ódýri kóreski smábíll á fátt sameiginlegt með framantöldum ofurbílum annað en það að hreyfast um á fjórum hjólum. Kaupverð hans er frá tæpum tveimur milljónum kr. Smurning, olíuskipti og þjónustueftirlit er á 15 þús km fresti. Það kostar 25-30 þús kr. í hvert sinn. Dekkjagangurinn kostar kominn undir bílinn 50-70 þ. kr.