Ofurrússajeppi

Rússnesk bílasmiðja sem heitir Avtoros átti það farartæki sem hvað mesta athygli hefur fengið á bílasýningunni í Moskvu. Þetta fararæki  sem nefnist Avtoros Shaman er alger ofur-Rússajeppi sem ætti að geta skilað fjallafólki á hvern þann stað sem það óskar, hvar sem sá staður annars kann að vera.

http://www.fib.is/myndir/Russajeppi2.jpg
Stjórnklefinn er fremst fyrir miðju.
http://www.fib.is/myndir/Russland3.jpg
Rússneskur vegur að vorlagi þegar jarð-
klakinn er að bráðna og vegir verða eitt
drullusvað. Hér kemur Shaman sér vel.
http://www.fib.is/myndir/Krap2.jpg
Gamli Rússajeppinn gat nú líka
ýmislegt.

Jeppar eru gríðarlega vinsæl farartæki víða um veröldina og ekki síst hér á Íslandi og ætti þessi mikli Rússajeppi að falla í kramið hjá harðsoðnustu jeppamönnum sem líta ekki við Land Cruiser, Range Rover eða Cayenne nema búið sé að smíða þá upp og breyta í torfærutröll.

Þeir sem standa að baki þessari  smíði Avtoros Shaman eru ungir menn á þrítugsaldri sem líklega eiga framtíðina fyrir sér í bílasmíðinni því að í hinu víðlenda Rússlandi eru vegir mjög víða vondir og mikil þörf fyrir góða torfærubíla til að komast yfir drulluhvörfin.

Shaman er byggður með það fyrir augum að hann komist áfram í verstu hugsanlegu akstursaðstæðum. Undir bílnum eru átta hjól og beygjur eru á þeim öllum. Hjólin fjögur á fremri hásingunum beygja saman sem heild og hið sama gera hjólin á afturhásingunum tveimur. Beygjubúnaðurinn að framan og aftan er óháður hvor öðrum. Þannig er hægt að beygja til vinstri að framan en hægri að aftan, eða þá  beygja öllum hjólum til sömu áttar.

Hvert og eitt hjólanna átta er með búnaði til að hleypa lofti úr eða pumpa í þau. Dekkin eru belgmikil svipuð þeim sem oft má sjá undir íslenskum breyttum torfærujeppum.

Tæknibúnaður Shaman er fenginn héðan og þaðan. Þannig er vélin 240 ha. dísilvél frá Hyundai en drif, öxlar og drifsköft að mestu frá Iveco. Bíllinn er með vökvakerfi og vökvaknúnu aflúrtaki. Við það er hægt að tengja alls kyns tæki og tól. Við aflúrtakið má einnig tengja skrúfu en með henni er hægt að sigla bílnum yfir sjó og vötn en siglingahraði bílsins er 7 km á klst.

Shaman er innréttaður fyrir níu manns og er rúmt um hópinn. Ökumannssætið er fyrir miðju og minna stjórtæki og mælar eiginlega meir á flugvél en bíl. Hann er að miklu leyti byggður úr koltrefjaefnum og áli og er því ekki eins þungur og ætla mætti. Shaman er enn að minnsta kosti eingöngu fáanlegur á heimamarkaði í Rússlandi, en unnið er að því að markaðssetja hann í ýmsum heimshornum.  Hann er sagður kosta fimm milljón rúblur sem jafngildir um 22 milljónum ísl. kr.