Óheppni hjá Volvo í gær

Volvo í Torslanda í Gautaborg í Svíþjóð sýndi í gær blaða- og fréttamönnum nýja miðstöð sína fyrir árekstrarprófanir og voru nokkrir árekstrar sviðsettir fyrir gestina. Rúsínan í pylsuendanum átti að vera sýning á því hvernig hið nýja bíla-radarkerfi, sem nefnist Pedestrian Detection, virkar.  Hið neyðarlega gerðist að sýningin mistókst gersamlega. Kerfið í bílnum sem á að bregðast við og hemla sjálfvirkt brást einhverra hluta vegna á ögurstundu og bíllinn dúndraði aftan á kyrrstæðan vörubíl og fór í klessu.

 Hið nýja Pedestrian Detection kerfi hefur verið í prófunum og endurbótum í fjölda bíla undanfarna mánuði um alla Evrópu og á að koma fram sem staðalbúnaður í nýjum Volvo S60 sem nú er að koma á markað. Kerfið á að sjá hindranir framundan og ýmist hægja á bílnum á sjálfvirkan hátt eða stöðva hann alveg, ef ökumaður bregst ekki við.

 Á sýningunni í gær var kyrrstæður vörubíll sú hindrun sem kerfið átti að bregðast við og stöðva bílinn á sjálfvirkan hátt. Enginn ökumaður var í bílnum og á fréttamyndinni hér verður ekki séð að kerfið bregðist yfirhöfuð nokkurn skapaðan hlut við. Bíllinn keyrir á fullri ferð aftan á vörubílinn.

 Á fréttamyndinni er rætt við Hans Nyth stjórnanda árekstrarannsóknastöðvarinnar og hefur hann engin svör við því hvað fór úrskeiðis. Auto Motor & Sport hefur eftir öðrum talsmanni ransóknastöðvarinnar að búið hafi verið að gera þessa sömu tilraun um 400 sinnum áður og þá hafi allt virkað rétt, alltaf. En eitthvað ófyrirséð hafi gerst nú sem skýring muni finnast á fyrr eða síðar. „Væntanlegir kaupendur bíla þurfa ekki að óttast neitt. Kerfið á að vera og verður 100 prósent öruggt,“ sagði talsmaðurinn.

Nú er að hefjast kynning á nýja S60 bílnum með Pedestrian Detection kerfinu og er bílablaðamönnum hvaðanæva úr heiminum boðið að reynsluaka bílnum. Sænskir bílablaðamenn munu reynsluaka honum 17.-18. maí. Ekki er að efa að menn munu leggja sig sérstaklega eftir því að athuga hvort nýja kerfið virkar og spurngin er hvort Volvo blæs ekki til annarrar sýningar fljótlega sem vonandi tekst betur.